Það er af sem áður var í launamálum íslensku bankanna. Nýjar reglur um kaupaukakerfi, sem Fjármálaeftirlitið vinnur nú að því að búa til, munu setja bönkunum stólinn fyrir dyrnar þegar kemur að því að umbuna starfsmönnum fyrir vel unnin störf. Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í síðustu viku er ráð fyrir því gert að kaupaukar í bönkunum verði ekki meiri en sem nemur fjórðungi af árslaunum. Þá skal greiðslum vegna kaupauka frestað í þrjú ár, eða a.m.k. 40% af honum. Kaupaukagreiðslur verða ekki leyfðar hjá starfsfólki í áhættustýringu, innri endurskoðun eða regluvörslu, samkvæmt drögunum.

FME er langt komið í vinnu sinni við að móta nýjar reglur fyrir kaupaukakerfi. Þeirri vinnu er þó ekki lokið enn. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa Samtök fjármálafyrirtækja skila umsögnum um drögin og gagnrýnt m.a. atriðin sem nefnd eru hér á undan. Þ.e. 25% þakið á kaupaukann og frestun greiðslna á kaupauka í þrjú ár.

Ólík störf

Guðrún Johnsen, varaformaður stjórnar Arion banka, segir eðlilegt og skynsamlegt að taka kaupaukakerfi íslenskra banka til endurskoðunar eftir hrunið. Launakerfin þurfi að taka mið af rekstrarumhverfi bankanna og innri starfsemi þeirra. Að mati Guðrúnar þurfi reglur um kaupaukakerfi að taka mið af því að störf innan banka geti verið ólík og að hvati starfsmanna til mælanlegs árangurs geti verið ólíkur að eðli. „Þeir sem taka á móti innlánum og ávaxta þau hafa annan hvata heldur en þeir sem starfa í fjárfestingarbankastarfsemi og vinna með fjármagn sem kemur til þeirra frá áhættufjárfestum,“ sagði Guðrún. Hún segir að reglur um kaupaukakerfi þurfi að taka tillit til þessara þátta, þannig að tryggt sé að reglurnar dragi ekki úr samkeppnishæfni fyrirtækja.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.