Tryggingamiðstöðin braut lög þegar hún veitti tveimur framkvæmdastjórum sínum kaupauka árið 2014, segir Fjármálaeftirlitið. Þetta kemur fram í niðurstöðu athugunar sem FME gerði á kaupaukagreiðslum þar sem framkvæmdastjórarnir fyrrnefndu fengu 10% kaupauka án þess þó að hafa náð tilskildum lágmarksárangri fyrir því að kaupaukinn væri veittur.

TM rökstuddi veitingu kaupaukanna með þeim hætti að kaupaukakerfi TM væri undirskjal starfskjarastefnu fyrirtækisins og að stjórn félagsins gæti vikið frá skilyrðum um frammistöðu framkvæmdastjóranna. Þá hafi sérstakur rökstuðningur verið færður fyrir kaupaukanum í gerðarbók stjórnarinnar.

Fjármálaeftirlitið telur að brotið hafi verið á lögum um vátryggingafélög, en samkvæmt þeim er óheimilt að gera ráð fyrir kaupauka sem starfsmaður fær, óháð árangri í starfi. TM ákvarðaði að hluta til nýja árangurskvarða samhliða ákvörðun þeirra um að veita 10% kaupauka til framkvæmdastjóranna tveggja.

Tilgreina þarf, að mati FME, ákveðinn skilgreindan og mælanlegan árangur þegar tekin er ákvörðun um veitingu kaupauka - og mælikvarðar árangurs verða að vera ákvarðaðir fyrirfram. Annars stæðu aðilar sjaldnast frammi fyrir því að tilskilin frammistaða næðist ekki.