Vísbendingar eru um að kaupendamarkaður sé að skapast á fasteignamarkaði að mati fasteignasala. Dæmi eru um að verktakar hafi slegið verulega af verði nýsmíði í miðbæ borgarinnar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Samkvæmt blaðinu þekkjast þess dæmi að sex milljónir króna hafi verið slegnar af verði nýrra íbúða frá auglýstri verðskrá. Sá fyrirvari er þó gerður að í þeim tilfellum hafi kaupendur keypt íbúðir fyrir hundruð milljóna.

Óskar Bergsson, fasteignasali hjá Eignaborg, segir við blaðið að litlar og meðalstórar íbúðir, tveggja til fjögurra herbergja eignir í fjölbýlishúsum, seljist skjótt. Vandinn í nýbyggingunum sé sá að of hátt hlutfall eignanna sé „of stórt og of dýr og íbúðirnar sitja eftir óseldar eftir að þær minni eru seldar. Takmarkaður fjöldi bílastæða við sum af þessum húsum fælir kaupendur í sumum tilvikum líka frá“.