Þegar rætt hefur verið um að íslensku viðskiptabankarnir losuðu um eignir sínar erlendis í því skyni að draga úr heildaráhættu sem nú hvílir á Íslandi vegna umsvifamikillar starfsemi bankanna erlendis koma þrjú nöfn strax upp í hugann: FIH Erhvervsbank í Danmörku, Kaupthing Singer & Friedlander í Bretlandi og Glitnir ASA í Noregi en tveir fyrrnefndu bankarnir eru í eigu Kaupþings en allir þrír eru bankarnir sjálfstæð dótturfélög sem heyra síðan undir móðurfélögin hér heima.

Þegar þetta er skrifað er auðvitað ekki almennilega ljóst hvert framhaldið verður og eins líklegt að að erlend starfsemi að minnsta kosti bæði Kaupþings og Landsbanka verði komin í þrot. Hvernig sem það fer er auðvitað full ástæða til þess að velta fyrir sér hvaða verð fæst mögulega fyrir dótturbankana erlendis, hvort sem það fé endar þá í höndum skiptaráðanda eða ekki.

Öllum þeim erlendu sérfræðingum sem Viðskiptablaðið ræddi við ber saman um að erlendu dótturbankarnir yrðu seldir við V/ I-hlutfalli sem væri umtalsvert undir einum sem þýðir að minna fengist fyrir þá en sem nemur eigin fé þeirra.

Sala undir slíkum formerkjum myndi væntanlega höggva skarð í eiginfjárhlutföll móðurfélagsins hér heima sem hugsanlega gæti þýtt að eigendur þeirra þyrftu þá að leggja þeim til aukið eigið fé. Ef dótturbankarnir erlendis lenda hins vegar í þroti, eins og allt bendir til, gegnir hins vegar öðru máli.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .