Framleiðslufyrirtækið Vilko ehf. á Blönduósi og Náttúrusmiðjan ehf – ICEHERBS hafa keypt sameiginlega allt hlutafé í íslenska líftæknifyrirtækinu Protis sem hefur verið í eigu Kaupfélags Skagfirðinga frá upphafi. Margra ára rannsóknar- og þróunarvinna er að baki fæðubótefna Prótís. Tegundirnar Protís liðir og Protis kollagen eru mest seldar vörur fyrirtækisins.

Framtíðarsýn nýrra eigenda felur í sér að breikka vörulínu Protís og viðhalda núverandi gæðastimpli. Í tengslum við viðskiptin verður Kaupfélag Skagfirðinga fimmtungshluthafi í Vilko ehf., en eitt af markmiðum viðskiptanna er að auka samstarf milli aðila.

„Það er mikið fagnaðarefni að fá Protis inn í eignasafn fyrirtækisins og ekki síður að fá Kaupfélag Skagfirðinga að auknum krafti í hluthafahópinn. Þetta gefur vexti Prótís byr í seglin til framtíðar og er um leið lyftistöng fyrir atvinnulífið á Norðurlandi vestra,“ segir Kári Kárason, framkvæmdastjóri Vilko.

Katrín Amni Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Náttúrusmiðjunnar segir um spennandi viðbót við starfsemi félagsins sé að ræða.

„Enda framleiðir og þróar Protis fæðubótarefni úr íslensku hráefni, og við hjá ICEHERBS höfum þróað og framleitt íslensk bætiefni með áherslu á náttúruleg innihaldsefni, og því raunhæft næsta skref.“

Bökunarvörur og bætiefni

Fyrirtækið var stofnað 1969 og hefur staðið að framleiðslu á eigin vörumerki sem aðalega hafa verið bökunarvörur og súpur. Vilko á einnig vörumerkið Prima sem er þekkt fyrir stórt úrval krydda. Vilko hóf að framleiða náttúruleg bætiefni í hylkjum fyrir Náttúrusmiðjuna ehf. árið 2012, sem þróar og selur náttúrulegu bætiefnalínuna ICEHERBS.

Vörumerkið ICEHERBS þróar og framleiðir náttúrleg bætiefni hér á landi. Vörumerkið er í eigu Náttúrusmiðjunnar ehf Fyrirtækið hefur vaxið hratt síðastliðnu ár og aukið vöruframboð sitt ár frá ári með stöðugri vöruþróun.

Markmið fyrirtækisins er að nýta hreinar afurðir náttúrunnar til þess að framleiða og  þróar hágæða, hrein bætiefni með mikla virkni. ICEHERBS er með starfsstöðvar í Kópavogi.

Protis ehf. sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu á lífvirku fiskprótíni úr villtum íslenskum þorski, eða svokölluðu IceProtein® og afurðum sem innihalda IceProtein®. Hlutverk fyrirtækisins er að skapa verðmæti með því að þróa og markaðssetja heilsuvörur úr íslensku hráefni, sem aflað og unnið er á sjálfbæran hátt, fyrir viðskiptavini sem leita eftir hágæða náttúrulegum fæðubótarefnum.