Skuldir Kaupfélags Skagfirðinga (KS) lækkuðu um 1,2 milljarða milli áranna 2010 og 2011. Hagnaður síðasta árs nam 2.451 milljón króna og hækkaði lítillega frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður móðurfélagsins fyrir fjármagnsliði var 931 milljón samanborið við 548 milljóna króna hagnað árið áður. Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri segir afkomuna svipaða þeirri sem var í fyrra.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins má lækkun skulda að stærstum hluta rekja til endurgreiðslu skulda FISK-Seafood, sem er alfarið í eigu KS og tilheyrir samstæðunni. Er það í takt við lækkandi skuldahlutfalls annarra stærri sjávarútvegsfyrirtækja landsins, sem hafa síðustu misseri greitt hratt niður skuldir.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.