*

föstudagur, 23. ágúst 2019
Innlent 17. apríl 2019 15:04

Kaupfélagið aldrei beitt þvingunum

Þórólfur Gíslason blæs á sögusagnir um að hann sé skuggastjórnandi víða í atvinnulífinu og í Framsóknarflokknum.

Ritstjórn
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga.
Ragnar Axelsson

Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri í Kaupfélagi Skagfirðinga, blæs á sögusagnir um að hann sé skuggastjórnandi víða í atvinnulífinu og í Framsóknarflokknum í viðtali í Morgunblaðinu.

„Ég hef aldrei verið mjög upptekinn af því hver umræðan er um mína persónu. Auðvitað hef ég séð ýmislegt neikvætt í fjölmiðlum í gegnum tíðina og stundum tekið það nærri mér. Það er hins vegar ekki auðvelt að bera hönd fyrir höfuð sér þegar maður verður fyrir svona dylgjum og jafnvel árásum, og ég hef einfaldlega kosið að einbeita mér að daglegum störfum fyrir kaupfélagið frekar en að elta ólar við margt af því sem sagt hefur verið bæði um mig og kaupfélagið. Væntanlega finn ég aldrei út hvort það sé rétt stefna eða röng en ég geri ekki ráð fyrir að þessi afstaða mín muni breytast í framtíðinni,“ segir Þórólfur í sínu fyrsta stóra viðtali í tvo áratugi.

Þá segir hann gott rými fyrir aðra aðila til atvinnustarfsemi á Sauðárkróki. „Við höfum aldrei beitt neinum þvingunum gagnvart öðrum sem vilja koma hingað og vera með atvinnurekstur og annað, en teljum að við þurfum ekki að víkja fyrir öðrum. En við erum alls ekki í öllu. Við erum til dæmis ekki í byggingastarfsemi, ferðaþjónustu og hótelrekstri og slíku. Við höfum engin önnur áform en að vera áfram með kröftuga atvinnustarfsemi í því sem við erum að gera, og gera það vel, en við erum vissulega stór í framleiðslunni. Hún er fyrirferðarmikil.“