Kaupfélag Skagfirðinga tilkynnti í dag að dótturfélag þess, kjötvinnslan Esja Gæðafæði ehf. í Reykjavík, myndi endurgreiða um það bil 17 milljónir króna stuðning sem Vinnumálastofnun hafði veitt vegna starfsfólks vinnslunnar á grundvelli hlutabótaleiðar. Um eitt þúsund manns starfa hjá kaupfélaginu og dótturfélögum þess.

Samkvæmt yfirlýsingunni er markmið kaupfélagsins um þessar mundir að verja störf starfsmanna. Fram kemur að „með þessari ákvörðun er sú stefna kaupfélagsins undirstrikuð að leita allra leiða til þess að ná því markmiði innan samstæðunnar án sértækrar aðstoðar frá íslenska ríkinu.“ Í tilkynningunni er einnig tekið fram að kjötvinnslan hefur aldrei greitt kaupfélaginu arð.