Kaupfélag Skagfirðinga hefur ákveðið að framlengja fram yfir páska matvælaaðstoð sína við þá sem eiga í erfiðleikum vegna atvinnumissis af völdum COVID-19 faraldursins eða fjárhagsvanda af öðrum ástæðum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Matargjafir félagsins fyrir jólin, alls um 90 þúsund máltíðir sem dreift var með milligöngu hjálparstofnana, komu sér víða vel en vandinn er enn til staðar. KS hefur þess vegna tekið ákvörðun um að halda áfram á sömu braut í samstarfi við Fjölskylduhjálp Íslands, Hjálparstofnun kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Kópavogs, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og aðra staðbundna aðila,“ segir í fréttatilkynningunni.

Fyrirkomulag varðandi dreifingu matvælanna verði með sama hætti og fyrr. Framangreindar hjálparstofnanir annist úthlutun og hver máltíð verði sem fyrr samsett af íslenskum matvælum sem einkum eigi uppruna sinn í framleiðslu kaupfélagsins og dótturfélaga þess.