*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 20. janúar 2021 10:01

Kaupfélagið má eiga Metro

KS hefur keypt M-veitingar ehf., sem rekur tvo veitingastaði þar sem McDonalds var áður til húsa.

Ritstjórn
Veitingastaður Metro í Skeifunni.
Haraldur Guðjónsson

Kaupfélag Skagfirðinga hefur fengið heimild Samkeppniseftirlitsins til að kaupa M-veitingar ehf., sem reka Metro veitingastaðina.

Veitingastaðir Metro eru annars vegar í Skeifunni í Reykjavík og hins vegar á Smáratorgi í Kópavogi, en í báðum tilvikum voru þar áður reknir veitingastaðir McDonalds sem ekki eru með ósvipað vöruúrval og Metro býður upp á í dag.

Í ákvörðun SKE kemur fram að í samrunaskrá segi að þann 31. október 2020 hafi KS og hluthafar M-veitinga undirritað samning um kaup KS á öllu hlutafé í M-veitingum. Kaupin séu hluti af uppgjöri skulda Álfasögu ehf., systurfélags M-veitinga, og Guma ehf. gagnvart KS og dótturfélögum þess.

Samkeppniseftirlitið segir samruna félaganna hvorki raska samkeppni né hafa skaðleg áhrif á neytendur, enda sé markaðshlutdeild Metro „óveruleg, sama hvaða mælikvarði sé notaður.“

Í því samhengi ber stofnunin saman veltu Metro árið 2019 sem hafi numið rúmlega 400 milljónum króna, saman við heildarveltu allra veitinga- og skyndibitastaða á Íslandi sem hafi numið um 80 til 90 milljörðum króna árið 2018.

„Sé eingöngu litið til aðila sem höfðu að lágmarki 200 milljóna króna veltu árið 2018 og störfuðu á höfuðborgarsvæðinu sé heildarveltan 40-45 milljarðar króna.“

Viðskiptablaðið sagði frá því á dögunum að Kaupfélagið hefði selt líftæknifélagið Protis en eignast fimmtungshlut í Vilko í viðskiptunum. Jafnframt hefur verið fjallað um aukin hlut KS í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, en kaupfélagið hagnaðist um 5 milljarða árið 2018.

Fyrir er Kaupfélagið með bein eða óbein yfirráð í eftirtöldum félögum:

 • Esja gæðafæði ehf. 100%
 • FISK Seafood ehf. 100%
 • Fóðurblandan ehf. 53,71%
 • Vörumiðlun ehf. 100%
 • Tengill ehf. 100%
 • Esja gæðafæði ehf. 100%
 • Fóðurfélagið ehf. 100%
 • Nýprent ehf. 100%
 • Trésmiðjan Borg ehf. 100%
 • Sláturhús Hellu hf. 68%
 • Vogabær ehf. 100%
 • Íslenskar sjávarafurðir ehf. 100%
 • Protis ehf. 100%
 • Iceprotein ehf. 100%
 • KS-IcePro ehf. 100%
 • IceCorpo Iceland ehf. 50%
 • Norðlensk Orka ehf. 92,9%
 • Brennigerði ehf. 100%
 • Háaborg fjárfestingar ehf. 77%
 • Möðrufell ehf. 50%
 • Feykir ehf. 100%
 • Sláturhús KVH ehf. 50%
 • Steinull ehf. 50%