*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 16. apríl 2018 11:41

Kaupfélagið með 33 milljarða í tekjur

Kaupfélag Skagfirðinga hagnaðist um 2,3 milljarða á síðasta ári og fjárfesti fyrir 14 milljarða.

Ritstjórn
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri KS og Sigurjón R. Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri.
Aðrir ljósmyndarar

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hagnaðist um rúmlega 2,3 milljarða króna á síðasta ári samanborið við 1,3 milljarða árið áður. Feykir greinir frá, en aðalfundur kaupfélagsins fór fram í Selinu í Kjötafurðastöð KS síðastliðinn laugardag. 

Heildartekjur KS námu 33,1 milljarði króna sem er aukning um tæpa tvo milljarða milli ára. Rekstrarafkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 4,2 milljarða og var óbreytt frá fyrra ári. Kaupfélagið sjálft skilaði 11,6 milljörðum í tekjur, FISK Seafood skilaði 7,4 milljörðum og Fóðurblandan skilaði 5,6 milljörðum. 

Alls fjárfesti KS fyrir 14 milljarða króna árið 2017. Um er að ræða stærsta einstaka fjárfestingaár í sögu félagsins. 

Eignir KS námu tæplega 50 milljörðum í árslok 2017 og jukust um 10 milljarða milli ára. Veiðiheimildir og aðrar óefnislegar eignir eru þar fyrirferðamestar og nema 14 milljörðum. Fasteignir í eigu KS eru bókfærðar á 9 milljarða og skip á 3,8 milljarða. Dótturfélög KS eru 14 talsins.

Undir lok rekstarársins 2017 keypti FISK Seafood útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Soffaníus Cecilsson í Grundarfirði, en það félag hefur með höndum fiskvinnslu og útgerð á tveimur bátum. Kaupin höfðu hins vegar í för með sér verulega stækkun á efnahagsreikningi félagsins.

Fjöldi ársverka hjá KS var tæplega 950 á síðasta ári. Launakostnaður nam 7,8 milljörðum. 

Samkvæmt frétt Feykis segir að mikil umræða hafi skapast á fundinum um stöðu sauðfjárbænda og að hún hafi verið erfið undanfarin misseri. Voru menn sammála um að spýta þyrfti í lófana og taka á markaðsmálunum fyrir sauðfjárafurðir. Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri upplýsti fundarmenn um það hve sterk króna er erfið fyrir allan útflutning - sjávar- eða landbúnaðarafurðir, steinull eða annað.

„Mikilvægt er að samstaða náist meðal sauðfjárbænda og sláturleyfishafa um aðgerðir er gagnist atvinnugreininni til framtíðar litið. Annars er hætt við óæskilegri og neikvæðri búseturöskun,“ sagði Þórólfur.