*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 18. október 2014 09:46

Kaupfélagið skilar 1,7 milljarða hagnaði

Helstu eignir Kaupfélags Skagfirðinga eru FISK-Seafood og Íslenskar sjávarafurðir.

Ritstjórn
Aðrir ljósmyndarar

Kaupfélag Skagfirðinga skilaði 1,7 milljarða króna hagnaði í fyrra, en árið 2012 nam hagnaðurinn tæpum 2,3 milljörðum. Velta samstæðunnar nam 28,1 milljarði króna, en var 26,5 milljarðar árið 2012.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir minnkaði úr rétt rúmum fjórum milljörðum í 3,7 milljarða og þá voru fjármagnsliðir neikvæðir um 522,5 milljónir í fyrra, en jákvæðir um 192,5 milljónir árið 2012.

Eignir samstæðunnar námu um síðustu áramót alls 32,3 milljörðum, skuldir námu rúmum 10 milljörðum og eigið fé var því jákvætt um 22,2 milljarða króna.

Helstu eignir kaupfélagsins eru m.a. 100% hlutur í FISK-Seafood ehf. og 100% hlutur í Íslenskum sjávarafurðum ehf. Þórólfur Gíslason er kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga.