Kaupgeta neytenda á nýjum bílum hefur ekki verið minni frá árinu 1960 að sögn Özurar Lárussonar, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins. Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu er haft eftir honum að tollar og vörugjöld á nýja bíla séu alltof há og stjórnvöld gætu tekið tillit til þessa og lækkað vörugjöld á bílum. Stór hluti Íslendinga hafi ekki efni á nýjum sparneytnari bílum. Flestir stærri fjölskyldubílar og jeppar verði ókaupanlegir innan 18 mánaða þegar afsláttur á vörugjöldum slíkra bíla rennur út.

Í sama streng tekur Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, sem segir nýja bíla orðna lúxusvöru vegna veikari krónu. Líkt og hækkandi álögur á eldsneytisverð hafi hægt á hagkerfinu hafi hækkandi álögur á bifreiðar hægt á bílainnflutningi.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir mun hagkvæmara að endurnýja yfir í sparneytinn fjölskyldubíl nú en áður og hafi ríkisstjórnin gert mikið í þeim málum til þess að hvetja til endurnýjunar. Aðspurður hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að það sé orðið dýrara að kaupa bíla fyrir almenning svarar hann því til að hann hafi áhyggjur af því að á Íslandi hafi orðið bankahrun og kaupmáttur veikst.

Morgunblaðið hefur eftir Pálma Kristmundssyni hjá bill.is að notaðir bílar á verðbilinu 300-500 þúsund séu heit söluvara í dag og seljist yfirleitt á innan við viku en ódýrari bílar séu yfirleitt seldir utan milligöngu bílasölu. Hann segir ódýra bíla brátt verða hörgulvöru.