„Við höfum haldið bjöllunni við og hringt henni á brunaæfingum og í morgunmat og svona,“ segir Kristín Jóhannsdóttir, samskiptastjóri Kauphallarinnar.

Langt var orðið síðan Kauphallarbjallan hljómaði þegar þau Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Kauphallarforstjórinn Páll Harðarson hringdu henni í morgun í tilefni af því að sértryggð skuldabréf Íslandsbanka voru tekin til viðskipta.

© BIG (VB MYND/BIG)

Kauphallarbjöllum er alla jafna hringt við skráningu fyrirtækisins á hlutabréfamarkað. Brugðið var útaf vananum í Kauphöllinni hér morgun en bjöllunni hefur aldrei fyrr verið hringt við töku skuldabréfa.

Ástæðan er einfaldlega sú að ekkert hefur verið um skráningu fyrirtækja á markað hér í rúm þrjú ár, eða frá því hlutabréf Skipta, móðurfélags Símans, voru tekin til viðskipta 19. mars árið 2008. Skömmu síðar fóru fjármálamarkaðir á hliðina og hefur ekkert félag verið skráð á markað síðan þá.

Kristín segir að í skugga hrunsins sé atburðurinn í morgun merkari en hver önnur skráning skuldabréfa á markað. „Þetta er jú í fyrsta skiptið sem banki skráir skuldabréf á markað eftir hrun og mikilvægt skref í fjármögnun fjármálakerfisins,“ segir hún.

Spurð hvort nauðsynlegt hafi verið að þurrka rykið af Kauphallarbjöllunni svarar Kristín: „Ég stóð fyrir því.“

Stutt er þar til Kauphallarbjöllunni verður hringt á ný. Hlutafjárútboð Haga stendur nú yfir og verða hlutabréf í félaginu tekin til viðskipta í Kauphöllinni á fimmtudag í næstu viku.

Kauphöllin - Nasdaq - Íslandsbanki
Kauphöllin - Nasdaq - Íslandsbanki
© BIG (VB MYND/BIG)