Aðalmeðferð hófst í morgun í máli sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og þremur undirmönnum hans í bankanum. Eru þeir sakaðir um að hafa með kauphallarviðskiptum handstýrt verði hlutabréfa í bankanum á þaulskipulagðan hátt.

Fram kemur á fréttavef RÚV að sérstakur saksóknari hafi látið útbúa sérstakan kauphallarhermi til þess að gefa mynd af viðskiptunum og að saksóknari hafi varpað herminum upp á tjald í dómssalnum.

Helgi Sigurðsson, verjandi Júlíusar Steinars Heiðarssonar, sagði að hermirinn endurspeglaði ekki þá mynd sem menn höfðu fyrir framan sig á sínum tíma. Sigurjón Árnason tók einnig sjálfur til máls og sagðist ekki skilja hvað væri að gerast í dómssalnum. Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Sigurjóns, sagði jafnframt að hermirinn væri óskiljanlegur. Kemur þó fram að aðstoðarmenn saksóknara hafi varið þónokkrum tíma í að reyna að útskýra hvernig hermirinn virkaði.