Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, eða Nasdaq OMX á Íslandi eins og fyrirtækið heitir formlega eftir að OMX keypti kauphöllina á sínum tíma og Nasdaq keypti síðan OMX, hefur að undanförnu gert sig gildandi í umræðunni um gjaldeyrishöftin sem hann telur mikilvægt að verði afnumin sem fyrst og hefur hann m.a. fært rök fyrir því að slíkt sé hægt að gera svo til umsvifalaust.

Páll tók við núverandi starfi sínu fyrr á þessu ári þegar Þórður Friðjónsson lést en hann er þó ekki nýr í yfirstjórn Kauphallarinnar enda hafði hann stýrt rekstrarsviði fyrirtækisins, og um leið verið staðgengill Þórðar, allt frá árinu 2002 þegar hann hóf störf hjá Kauphöllinni.

Áður en hann kom til Kauphallarinnar starfaði Páll hjá Þjóðhagsstofnun, einnig undir forystu Þórðar, en þar hóf hann störf árið 1999. Hjá Þjóðhagsstofnun sinnti hann m.a. gerð þjóðhagslíkana og gegndi einnig formennsku í starfshópi um mat á áhrif Noral-verkefnisins á íslenskt efnahagslíf. Til Þjóðhagsstofnunar kom hann frá Ekonomika – hagfræðiráðgjöf sem hann starfaði hjá í eitt ár.

Doktorspróf frá Yale

Eins og nærri má geta af því sem kemur fram hér að framan er Páll menntaður hagfræðingur en að loknu stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1985 hélt hann til Minnesotafylkis í Bandaríkjunum þar sem hann nam hagfræði við hinn virta Macalester-skóla en ekki minni menn en Kofi Annan, fyrrum aðalritari Sameinuðu þjóðanna og Walter Mondale, sem var varaforseti Jimmy Carter, hafa numið við þann skóla. Páll lauk BA-prófi frá Macalester árið 1989 og þaðanlá leiðin á austurströndina, nánar tiltekið til New Haven í Connecticut þar sem Páll hóf doktorsnám í Yale-háskóla, einum virtasta háskóla Bandaríkjanna og raunar heimsins alls en Yale er iðulega í efstu sætum lista yfir bestu háskóla í heimi. Doktorsprófinu lauk hann árið 1998 og fjallaði doktorsverkefni hans um raforkugeirann.

Raunar hefur Páll fjallað mikið um orkugeirann á starfsferli sínum en hann hefur haldið fjölda erinda og fyrirlestra um orkugeirann á Íslandi auk þess að skrifa rannsóknarritgerð um verðmæti umhverfisins í samvinnu við Magnús bróður sinn.