Kauphallarsamstæðan OMX, sem samanstendur af sænsku, finnsku og baltnesku kauphöllunum, og Kauphöllin í Kaupmannahöfn (KF), hafa í dag undirrritað viljayfirlýsingu um að sameina félögin. Kauphöll Íslands fagnar þessum áformum og óskar umræddum félögum góðs gengis við frágang sameiningarinnar.

Þessi sameining felur ekki í sér breytingar á NOREX-samstarfinu sem kauphallirnar á Íslandi og Noregi eru aðilar að ásamt þeim kauphöllum sem fyrirhugaður samruni nær til. Hins vegar er líklegt að samruninn herði á þróun sameiginlegs norræns verðbréfamarkaðar, bæði á sviði kauphallarviðskipta og uppgjörsmála.

"Þetta skref er fagnaðarefni. Í ljósi hraðrar samrunaþróunar kauphalla í Evrópu er enginn vafi á því að sameining OMX og KF mun styrkja samkeppnisstöðu norrænna fjármálamarkaða og flýta fyrir því að gera öll Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin að einum sameiginlegum verðbréfamarkaði. Það er brýnt að leita allra leiða til að auka hagkvæmni í verðbréfaviðskiptum og umræddur samruni er viðleitni í þá áttina," segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands.