Kauphöll Íslands og OMX, sem á og rekur kauphallirnar í Stokkhólmi, Helsinki, Kaupmannahöfn og Eystrasaltsríkjunum, hafa hafið viðræður um nánara samstarf, segir í tilkynningu Kauphallar Íslands.

Viðræðurnar eru á frumstigi, en Kauphöllin og OMX eiga nú þegar með sér samstarf um ýmsa þætti viðskiptaumhverfis kauphallanna, segir í tilkynningunni.

Viðræður eru hafnar um hvernig kauphallirnar gætu aukið samstarfið til hagsbóta fyrir skráð félög, markaðsaðila og fjárfesta. Samningaviðræður eru á byrjunarstigi og verða frekari upplýsingar veittar á síðari stigum, segir í tilkynningunni.

Greiningaraðili sem Dow Jones fréttastofan ræddi við segir að viðræðurnar komi ekki á óvart, þar sem þegar hafi komið fram vilji um nánara samstarf, hann bætti við að ICEX væri lítill hlutabréfamarkaður og myndi því ekki hafa teljanleg áhrif á gengi hlutabréfa OMX.