Hinn 5. janúar mun Kauphöll Íslands taka upp heitið OMX Nordic Exchange á Íslandi. Í tilkynningu frá Kauphöllinni kemur fram að rekstur félagsins er þegar orðinn hluti af rekstri OMX og þjónusta fyrirtækisins mun smám saman verða samþætt þjónustu OMX Nordic Exchange í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.

Þessi breyting verður sýnileg á vef Kauphallarinnar á föstudaginn.

Frá 3. janúar er isec markaðurinn hluti af First North hliðarmarkaði OMX og upplýsingar um íslensk félög sem þar eru skráð má finna á www.omxgroup.com/nordicexchange/firstnorth. Þau verða hluti af heildarvísitölu First North. Þeir sem hafa kauphallaraðild að íslenska hlutabréfamarkaðnum geta átt viðskipti með bréf á First North Iceland. Reglur á markaðnum eru í megindráttum þær sömu og giltu um isec markaðinn en þó hefur orðið sú breyting að félög á First North skulu hafa viðurkenndan ráðgjafa (e. Certified Advisor) sér til halds og trausts við skráningu og þegar viðvarandi upplýsingaskylda á markaðnum tekur við. Núverandi félög á First North Iceland hafa sex mánuði til að aðlagast þessari breytingu segir í tilkynningunni

Aðrar breytingar munu fylgja inngöngu Kauphallarinnar í OMX Nordic Exchange. Þær verða kynntar nánar eftir því sem samþættingarvinnu vindur fram. Helstu breytingar sem verða á íslenska markaðnum:
? Íslensk félög verða skráð á samræmdan Nordic kauphallarlista frá 2. apríl 2007.
? Hinn 2. apríl 2007 verða íslensk félög tekin inn í vísitölur OMX.
? Íslenskar markaðsupplýsingar samþættast markaðsupplýsingum OMX þann 2. apríl 2007.
? Kauphöllin tekur í notkun sameiginlega heimasíðu OMX 2. apríl 2007.
? Afleiðumarkaður settur á stofn 7. maí 2007.

Þessar breytingar marka tímamót í sögu verðbréfaviðskipta á Íslandi. Í kjölfar þeirra fá útgefendur á íslenska markaðnum aukinn sýnileika og víðtækari aðgang að fjárfestum. Að sama skapi munu íslenskir fjárfestar með einfaldari hætti hafa úr fleiri kostum að velja. Kauphöllin hefur þegar fundið fyrir auknum áhuga erlendra banka og verðbréfafyrirtækja á að gerast aðili að íslenska markaðnum og á von á auknum áhuga erlendra fjárfesta í framhaldinu.