Kauphöll Íslands, Nasdaq OMX Iceland, hefur ákveðið að áminna Arion banka opinberlega. Bankinn er talinn hafa gerst brotlegur við ákvæði aðildarreglna. Í niðurstöðu ákvörðunarinnar segir að óumdeilt sé að Arion banki tilkynnti ekki á réttum tíma um fjölda viðskipta sem skylt var að tilkynna í viðskiptakerfi Kauphallar.

Málavextir eru þeir að í lok nóvember sl. hafði Arion sambasnd við Kauphöllina og upplýsti að vegna tæknilegra mistaka hefði ekki verið tilkynnt um fjölda viðskipta sem framkvæmd höfðu verið af bankanum á tímabilinu mars 2010 til loka nóvember 2010. „Þar
sem svo langt hafði liðið frá því að viðskiptin voru framkvæmd var tekin sú ákvörðun að viðskiptin yrðu tilkynnt með heimild Kauphallarinnar og merkt með viðskiptategundinni (e. trade type) „Exchange Granted Trade“. Á sama tíma birti Kauphöllin opinberlega markaðstilkynningu þar sem fram kom að ástæða þess að bankinn tilkynnti viðskiptin með þessum hætti væri sú að um væri að ræða fjölda viðskipta sem kauphallaraðila hefði ljáðst að tilkynna sökum tæknilegra annmarka í kjölfar innleiðingarinnar á INET í febrúar 2010.“ segir í rökstuðningi Kauphallarinnar.

Ennfremur segir: „Þann 8. desember 2010 birti Kauphöllin aðra markaðstilkynningu þar sem fram kom að tekin hefði verið ákvörðun um að fella niður öll „Exchange Granted“ viðskipti sem tilkynnt höfðu verið af Arion daginn áður. Hafði þá komið í ljós að verulegur hluti viðskiptanna hafði verið tilkynntur fyrir mistök. Leiðrétt viðskipti voru svo tilkynnt eftir lok viðskipta sama dag.“

Reglur Kauphallar, svokallaðar NMR reglur, kveða á um að viðskipti sem stofnað er til meðan á viðskiptatíma stendur skuli tilkynnt án tafar og eigi síðar en 3 mínútum eftir að viðskiptin fóru fram. Einnig er í reglunum að finna ákvæði varðandi uppsetningu kerfa og tengingu kauphallaraðila við viðskiptakerfi kauphallarinnar. Kauphallaraðili, í þessu tilviki Arion banki, ber ábyrgð á tæknilegri uppsetningu.

Það skal þó virt Arion til málsbóta að umrædd mistök í tengingu við viðskiptakerfi Kauphallarinnar hafa verið lagfærð og verkferlar endurskoðaðir með það fyrir augum að tryggja að tilkynning viðskipta fari fram með réttum hætti og innan þeirra tímamarka sem NMR reglurnar kveða á um. Við ákvörðun um viðurlög hefur einnig verið tekið tillit til þess að Arion virðist hafa tekið umrædda brotalöm í innra verklagi alvarlega og lagt áherslu á að leiðrétta umrædd mistök.

Litið alvarlegum augum

„Kauphöllin lítur alvarlegum augum á það hversu seint tæknileg mistök í tengingu við viðskiptakerfi Kauphallarinnar komu í ljós. Eins og fram kemur í ákvæðum NMR er það á ábyrgð kauphallaraðila að tryggja að uppsetning kerfa og tenging við viðskiptakerfi Kauphallarinnar sé með þeim hætti að hægt sé að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í NMR reglunum. Augljóst er að uppsetning á innanhúskerfi Arion stóðst ekki tilskyldar kröfur en Kauphöllin telur sérstaklega ámælisvert hversu eftirliti með viðskiptatilkynningum var ábótavant,“ segir í ákvörðuninni.

„Kauphöllin telur einnig ljóst að Arion hafi brotið gegn ákvæðum NMR með því að tryggja ekki að einungis þau viðskipti sem falla undir reglurnar væru tilkynnt í viðskiptakerfi Kauphallarinnar. Eins og fram hefur komið tilkynnti bankinn fjölda viðskipta ranglega þann 7. desember sl.“

Mistök verið lagfærð

„Þegar horft er til þess hversu langur tími leið frá því að tilkynna átti viðskiptin þar til mistökin uppgötvuðust og hversu mikinn fjölda viðskipta var um að ræða þá telur Kauphöllin brot Arion gegn fyrrgreindum ákvæðum NMR sérlega ámælisvert og hefur því ákveðið að áminna bankann opinberlega fyrir brot gegn fyrrgreindum ákvæðum í NMR reglunum. Kauphöllin hefur þó virt það Arion til málsbóta að umrædd mistök í tengingu við viðskiptakerfi Kauphallarinnar hafa verið lagfærð og verkferlar endurskoðaðir með það fyrir augum að tryggja að tilkynning viðskipta fari fram með réttum hætti og innan þeirra tímamarka sem NMR reglurnar kveða á um. Við ákvörðun um viðurlög hefur einnig verið tekið tillit til þess að Arion virðist hafa tekið umrædda brotalöm í innra verklagi alvarlega og lagt áherslu á að leiðrétta umrædd mistök.“

Ákvörðun Kauphallarinnar vegna brota Arion banka hf.

„Kauphöllin áminnir Arion banka hf. opinberlega fyrir ofangreind brot á reglum Kauphallarinnar. Kauphöllin álítur að með háttsemi sinni hafi útgefandi gerst brotlegur við ákvæði 3.2.4 og 5.6.8-5.6.11, sbr. 5.15.3 í reglunum.

Ákvörðun um opinbera áminningu er tekin á grundvelli samnings við Arion um aðgang að viðskiptakerfi Kauphallarinnar, sbr. ákvæði 4.12.9 í NMR. Í 3. tölulið ákvæðisins segir meðal annars að vegna brota útgefanda á NMR reglunum sé Kauphöllinni heimilt að birta opinberlega yfirlýsingu varðandi umrætt mál.“