Kauphöll Íslands hefur ákveðið að áminna Fiskmarkað Íslands hf. opinberlega fyrir brot á reglum Kauphallarinnar. Kauphöllin álítur að Fiskmarkaður Íslands hf. hafi gerst brotlegur við ákvæði 2.3.5 í reglum fyrir útgefendur verðbréfa í Kauphöll Íslands hf. Málavextir eru þeir að að ársuppgjör félagsins var ekki ekki birt fyrr en 2. mars þrátt fyrir að stjórn hafi samþykkt það 26. febrúar sl.

Fiskmarkaður Íslands hf. er útgefandi hlutabréfa í Kauphöll Íslands og ber sem slíkur að fylgja reglum Kauphallarinnar um upplýsingagjöf. Með háttsemi sinni hefur Fiskmarkaður Íslands hf. brotið gegn ákvæði 2.3.5 í reglum fyrir útgefendur verðbréfa í Kauphöll Íslands hf. með því að birta ekki fréttatilkynningu í kjölfar stjórnarfundar sem samþykkti uppgjörið.

Ákvörðun um beitingu opinberrar áminningar er tekin á grundvelli samnings Fiskmarkaðar Íslands hf. við Kauphöllina vegna skráningar hlutabréfa Fiskmarkaðar Íslands hf. í Kauphöll Íslands, sbr. ákvæði 7.3 í reglum fyrir útgefendur verðbréfa í Kauphöll Íslands en þar segir m.a. að vegna brota útgefanda á reglum Kauphallarinnar sé henni heimilt að birta opinbera yfirlýsingu varðandi umrætt mál.