Kauphöll Íslands hefur ákveðið að áminna Íbúðalánasjóð opinberlega fyrir brot á reglum Kauphallarinnar. Kauphöllin álítur að Íbúðalánasjóður hafi gerst brotlegur við ákvæði 4.2.1., 4.1.5 og 4.1.4 útgefendareglna.

Málavextir eru þeir að í tilkynningu sjóðsins frá 16. febrúar sl. kemur fram að matsfyrirtækið Standard & Poor's hafi staðfest gott lánshæfismat Íbúðalánasjóðs eftir sérstaka úttekt á stöðu sjóðsins. En í fréttatilkynningu Standard & Poor's kemur einnig fram eins og fyrirsögn hennar ber með sér að lánshæfiseinkunn Íbúðalánasjóðs hafi verið tekin af athugunarlista og að horfur séu neikvæðar. Töluvert ósamræmi var því í fréttatilkynningum sjóðsins og fréttatilkynningum Standard's & Poors.