Kauphöllin hefur ákveðið að áminna Kaupþing banka hf. (Gamli Kaupþing), opinberlega fyrir að hafa ekki með tilkynningu til Kauphallarinnar upplýst um ákvörðun sína um að  fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna vegna lána sem þeir höfðu fengið til hlutabréfakaupa í bankanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni og er Kaupþing talið hafa gerst brotlegt við ákvæði reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Tilkynning Kauphallarinnar er svohljóðandi:

Málavextir

Þann 4. nóvember sl. birtist á fréttavefnum mbl.is frétt um lán Kaupþings til starfsmanna bankans vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi. Í fréttinni kom meðal annars fram að stjórn bankans hefði á fundi sínum þann 25. september sl. ákveðið að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna vegna lánanna.

Um þetta var meðal annars vísað í yfirlýsingu frá fyrrverandi stjórn Kaupþings þar sem fram kom að vegna fallandi hlutabréfaverðs og aukins fjármagnskostnaðar hefði það verið mat stjórnar bankans að um tvær leiðir væri að velja. Annað hvort myndu starfsmenn selja hlutabréf sín og greiða þannig upp lánin eða að bankinn felldi niður það sem eftir stæði af ábyrgð starfsmanna á lánum vegna hlutabréfakaupa í bankanum.

Það hefði enn fremur verið mat stjórnar bankans að „hefðu lykilstarfsmenn bankans hafið stórfellda sölu á hlutabréfum sínum í bankanum hefði það, í ljósi viðkvæms ástands á fjármálamörkuðum, skaðað mjög stöðu bankans.“

Í kjölfar þess að fyrrgreind yfirlýsing stjórnar bankans birtist í fjölmiðlum sendi Kauphöllin beiðni um skýringar til Kaupþings. Farið var fram á skýringar á því af hverju Kaupþing birti ekki opinberlega upplýsingar um umfang þeirra ábyrgða sem felldar voru niður með ákvörðun bankans og upplýsingar um það hvaða nátengdu aðilar fengu persónulegar ábyrgðir felldar niður.

Loks var farið fram á skýringar á því af hverju upplýsingar voru ekki birtar um leið og ákvörðunin hafði verið tekin af stjórn bankans. Engar upplýsingar hafa verið birtar opinberlega um ákvörðun stjórnar Kaupþings.

Niðurstaða

Ekki verður annað ráðið en að stjórn Kaupþings hafi þann 25. september sl. tekið ákvörðun um að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna á lánum vegna hlutabréfakaupa í bankanum.

Ljóst er að ekki var tilkynnt opinberlega um aðgerðir stjórnar bankans og engar upplýsingar hafa verið aðgengilegar fjárfestum, aðrar en þær sem komu fram í yfirlýsingu fyrrverandi stjórnar bankans sem birt var í fjölmiðlum og annarri umfjöllun fjölmiðla.

Verður að telja að niðurfelling persónulegra ábyrgða starfsmanna feli meðal annars í sér ívilnun bankans til handa nátengdum aðilum, s.s. framkvæmdastjórum og öðrum stjórnendum. Verður ekki annað ráðið en að starfsmenn Kaupþings hafi upprunalega verið persónulega ábyrgir fyrir lánum sínum vegna hlutabréfakaupa.

Telur Kauphöllin að umræddar aðgerðir, þar sem ákvörðun var tekin um að fella niður persónulegar ábyrgðir vegna lána bankans til starfsmanna, þ.m.t. nátengdra aðila, falli undir það að vera viðskipti í skilningi ákvæðis 2.17 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Ekki verður séð að það teljist til venjulegra viðskiptahátta að fella niður persónulegar ábyrgðir einstaklinga vegna lána og því síður getur það talist til venjulegra viðskiptahátta að fella niður persónulegar ábyrgðir á þeirri stundu þegar veruleg óvissa virðist vera um að veð sem lagt hefur verið til tryggingar muni ekki standa undir greiðslu á láninu.

Verður því að telja að Kaupþingi hafi borið að birta opinberlega upplýsingar um niðurfellingu á persónulegum ábyrgðum vegna lána til nátengdra aðila eins og gerð er krafa um í ákvæði 2.17 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni. Jafnvel þó að stjórn Kaupþings hafi haft heimild til að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna leysir það bankann ekki undan skyldu til að birta opinberlega upplýsingar um þá ákvörðun í samræmi við reglur fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Verður að telja að hefði Kaupþing birt opinberlega tilkynningu um ákvörðun sína um að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna hefði það getað haft marktæk áhrif á verð hlutabréfa bankans. Hlýtur þetta einnig stuðning frá yfirlýsingu fyrrverandi stjórnar bankans þar sem fram kemur að hefðu persónulegar ábyrgðir starfsmanna ekki verið felldar niður hefðu starfsmenn bankans að öllum líkindum hafið „stórfellda sölu á hlutabréfum sínum“ og hefði það „í ljósi viðkvæms ástands á fjármálamörkuðum, skaðað mjög stöðu bankans“.

Samkvæmt þessu var aðgerðunum ætlað að koma í veg fyrir atburðarás sem hefði getað skaðað mjög stöðu bankans. Verður því að telja að upplýsingar um ákvörðun Kaupþings um að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna og upplýsingar um ástæðuna fyrir þeirri ákvörðun hafi verið til þess fallnar að hafa verðmótandi áhrif á verð hlutabréfa bankans.

Kauphöllin telur því ljóst að Kaupþingi hafi borið að birta opinberlega tilkynningu um ákvörðunina á þeim grundvelli að um verðmótandi upplýsingar hafi verið að ræða sem ástæða var að ætla að gætu haft marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa félagsins, sbr. ákvæði 2.1 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Þegar hafðir eru í huga hagsmunir fjárfesta er brýnt að allar upplýsingar sem skylt er að birta samkvæmt reglum Kauphallarinnar séu birtar opinberlega eins fljótt og unnt er og innan þeirra tímamarka sem þar er kveðið á um. Kaupþing hefur með samningi við Kauphöllina um töku hlutabréfa bankans til viðskipta gengist undir reglur Kauphallarinnar um upplýsingagjöf.

Sem útgefandi hlutabréfa í Kauphöllinni ber Kaupþing ábyrgð á því að upplýsingagjöf sé í samræmi við reglur Kauphallarinnar. Er bankanum því skylt að birta allar þær upplýsingar sem reglurnar taka til án tafar eða eins fljótt og unnt er, sbr. ákvæði 2.3 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni. Ljóst þykir að útgefandi sinnti ekki þeim kröfum sem gerðar eru í reglunum til upplýsingagjafar þar sem ofangreindar upplýsingar um ákvörðun stjórnar um að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna á lánum vegna hlutabréfakaupa í Kaupþingi voru ekki birtar opinberlega um leið og ákvörðunin hafði verið tekin.

Þegar horft er til málavaxta og að teknu tilliti til framkominna raka Kaupþings telur Kauphöllin að bankinn hafi með háttsemi sinni í umræddu tilfelli brotið gegn ákvæðum 2.1, 2.3 og 2.17 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Ákvörðun um opinbera áminningu

Kauphöllin áminnir Kaupþing opinberlega fyrir ofangreind brot á reglum Kauphallarinnar. Ákvörðun um opinbera áminningu er tekin á grundvelli samnings við Kauphöllina um töku verðbréfa útgefanda til viðskipta í Kauphöllinni, sbr. ákvæði 8.3 í reglum Kauphallarinnar.

Í 4. tölulið ákvæðisins segir meðal annars að vegna brota útgefanda á reglum Kauphallarinnar sé Kauphöllinni heimilt að birta opinbera yfirlýsingu varðandi umrætt mál.