Kauphöllin hefur ákveðið að áminna Nýherja opinberlega þar sem útgefandi er talinn hafa gerst brotlegur við ákvæði reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni.

Málavextir eru þeir að þann 28. september sl. barst Kauphöllinni afrit af kynningu Nýherja fyrir fjárfesta sem dagsett var 19. ágúst 2010.

Um var að ræða Powerpoint skjal og var titill þess „Nýherji hf. – Staða rekstrar og horfur – Kynning fyrir fjárfesta – 19. ágúst 2010“.

Í skjalinu komu m.a. fram upplýsingar um ákvæði samkomulags við Arion banka, drög að samkomulagi við Íslandsbanka, leiðréttan efnahagsreikning félagsins m.v. drög að samningum við bankana, verðmat m.v. tölur frá Deloitte, umfang hlutafjáraukningar, áætlaða sölu eigna og leiðréttan efnahagsreikning mv. hlutafjáraukningu og sölu eigna.

Þá kemur fram að þann 29. september sl. birti Nýherji tilkynningu um að hlutafé hefði verið aukið um 840 milljónir króna að markaðsvirði og að gengið hefði verið frá samningum við Arion banka og Íslandsbanka.

Einnig var þar fjallað um áhrif fjárhagslegu endurskipulagningarinnar á eigið fé, eiginfjárhlutfall í lok árs, vaxtaberandi skuldir og greiðslutíma lána, auk þess sem tilgreint er að lausafjárstaðan hefði styrkst og að veltufjárhlutfall félagsins yrði eðlilegt.

Þá segir einnig í tilkynningu Kauphallarinnar að þann 30. september sl. óskaði Kauphöllin eftir skýringum frá útgefanda. Var þar meðal annars óskað eftir afstöðu Nýherja varðandi það hvort upplýsingar sem komu fram í kynningunni gætu talist verðmótandi fyrir hlutabréf félagsins og, ef svo væri, hvers vegna þær hefðu ekki verið birtar opinberlega þegar þær lágu fyrir. Teldi útgefandi að ekki væri um að ræða verðmótandi upplýsingar fór Kauphöllin fram á rökstuðning þess efnis.

Þá fór Kauphöllin fram á upplýsingar um hvaða aðilar hefðu fengið aðgang að kynningunni og hvaða aðrar upplýsingar eða kynningar útgefandi hefði veitt aðilum aðgang að í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu Nýherja og ekki voru birtar opinberlega, sem og hvenær sá aðgangur hafi verið veittur.

Þá kemur fram að í svörum Nýherja hafi m.a. komið fram að í ársreikningum og árshlutareikningum Nýherja hefði verið fjallað um að félagið ætti í samningaviðræðum við viðskiptabanka um endurskipulagningu skulda.

Þetta er ekki í takt við reglur Kauphallarinnar en samkvæmt ákvæði í reglum Kauphallarinnar fyrir útgefendur fjármálagerninga skal útgefandi birta allar upplýsingar opinberlega sem reglurnar taka til eins fljótt og unnt er nema annað sé sérstaklega tekið fram. Í öðru ákvæði kemur fram að birta skuli upplýsingar um ákvarðanir eða aðrar forsendur og aðstæður sem eru „verðmótandi“. Í enn einu ákvæðinu kemur fram að upplýsingar sem félagið birtir skulu vera réttar, viðeigandi og skýrar og á engan hátt misvísandi.

„Kauphöllin fellst ekki á þau rök útgefanda að ekki hafi verið settar fram verðmótandi upplýsingar eða hugmyndir í kynningunni þann 19. ágúst sem ekki höfðu verið áður kynntar af hálfu félagsins,“ segir í tilkynningu Kauphallarinnar.

„[Nýherji] ákvað að veita völdum fjárfestum aðgang að áður óbirtum upplýsingum um gang fjárhagslegrar endurskipulagningar. Ætla má að útgefandi hafi litið svo á að viðkomandi fjárfestar væru líklegri til þess að fjárfesta í félaginu hefðu þeir aðgang að upplýsingum um gang viðræðna við kröfuhafa félagsins og aðrar aðgerðir við fjárhagslega endurskipulagningu þess, upplýsingar sem almennir fjárfestar höfðu ekki aðgang að og gátu ekki tekið mið af við sínar fjárfestingarákvarðanir.“

Þá segir einnig:

„Því er ljóst að mati Kauphallarinnar að ójafnræði hafi verið meðal fjárfesta. Breytir þar engu að um upplýsingar hafi verið að ræða sem í einhverjum tilvikum leiddu ekki til niðurstöðu, enda þarf ekki að ríkja full vissa um að af atburði verði til þess að upplýsingar geti talist verðmótandi. Að mati Kauphallarinnar verður því ekki annað séð en að um verðmótandi upplýsingar hafi verið að ræða sem útgefanda hafi borið að birta í allra síðasta lagi á sama tíma og valdir fjárfestar fengu aðgang að upplýsingunum...“