Kauphöllin hefur ákveðið að áminna Bakkavör Group hf. opinberlega og beita févíti að andvirði 2,5 milljóna króna þar sem útgefandi er talinn hafa gerst brotlegur við ákvæði reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni en málsatvik eru þau að þann 27. október sl. færði Kauphöllin hlutabréf Bakkavarar á Athugunarlista sökum óvissu varðandi fjárhagslega stöðu félagsins og verðmyndun fjármálagerninga þess.

Taldi Kauphöllin að upplýsingar sem komið höfðu fram í ummælum stjórnarformanns félagsins í sjónvarpsviðtali teldust verðmótandi.

Fram kemur í tilkynningu Kauphallarinnar að þar sem upplýsingarnar voru ekki birtar opinberlega var talin hætta á ójafnræði meðal fjárfesta varðandi aðgang að upplýsingunum. Upplýsingarnar vörðuðu ákvæði í lánasamningi Bakkavarar sem stjórnarformaður félagsins sagði veita lánveitendum félagsins heimild til gjaldfellingar ef breytingar yrðu á stjórn Exista hf., stærsta eiganda hlutafjár í Bakkavör, án samþykkis lánveitenda Bakkavarar.

Einnig kom fram að ef fall íslensku bankanna myndi leiða til falls Exista hf. gæti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir Bakkavör.

Þá kemur fram í tilkynningu Kauphallarinnar að í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni kemur fram að félagi beri, eins fljótt og unnt er, að birta upplýsingar um ákvarðanir eða aðrar forsendur og aðstæður sem eru verðmótandi.

„Telur Kauphöllin að upplýsingar um fyrrgreind tengsl við Exista hf., vegna ákvæða lánasamningsins, og möguleg áhrif á Bakkavör séu til þess fallin að hafa marktæk áhrif á markaðsverð verðbréfa félagsins,“ segir í tilkynningunni og þannig hafi félaginu því verið skylt að birta án tafar opinberlega upplýsingar um ofangreind atriði samkvæmt reglum Kauphallarinnar.

„Kauphöllin telur ljóst að brotið hafi verið gegn ákvæðum 2.3 og 2.4 í reglum Kauphallarinnar þar sem stjórnarformaður Bakkavarar kom á framfæri verðmótandi upplýsingum áður en þær höfðu verið birtar opinberlega. Enn fremur verður að telja alvarlegt brot á reglum Kauphallarinnar að Bakkavör hefur ekki birt upplýsingar um framangreind atriði, þrátt fyrir að fjármálagerningar félagsins hafi verið færðir á Athugunarlista,“ segir í tilkynningunni.