Kauphöllin hefur ákveðið að áminna Exista hf. opinberlega og beita félagið févíti upp á 4 milljónir króna vegna tveggja atvika þar sem útgefandi er talinn hafa gerst brotlegur við ákvæði reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni.

Samkvæmt tilkynningunni er Exista talið hafa brotið gegn ákvæðum í reglum Kauphallarinnar. Annars vegar með hlutafjáraukningu félagsins nýlega og hins vegar fyrir að upplýsa ekki, með tilkynningu til Kauphallar um fjárhagsstöðu félagsins.

Tilkynningin frá Kauphöllinni vegna málsins er svohljóðandi: (birt óbreytt úr tilkynningu Kauphallarinnar)

1. Taka nýrra hluta til viðskipta

Málavextir Þann 8. desember sl. birti Exista opinberlega tilkynningu um að félagið hefði, í samræmi við samþykkt hluthafafundar Exista 30. október sl., ákveðið að auka hlutafé í félaginu um 50 milljarða hluta í skiptum fyrir 1 milljarð hluta í Kvakki ehf.

Í samræmi við þetta birti félagið opinberlega tilkynningu þann 15. desember sl. þar sem greint var frá stöðu 10 stærstu hluthafa í Exista eftir að hækkunin hafði verið framkvæmd. Samkvæmt tilkynningunni nam hlutafé félagsins eftir hækkun 64.174.767.632 hlutum. Heildarfjöldi hluta sem teknir hafa verið til viðskipta í Kauphöllinni er 14.174.767.632 hlutir.

Í kjölfarið fór Kauphöllin fram skýringar á því af hverju ofangreindir hlutir hefðu ekki verið teknir til viðskipta í samræmi við reglur Kauphallarinnar og skilyrði löggjafar. Í skýringum félagsins var lýst afstöðu félagsins og ástæðu fyrir því af hverju ekki hefði verið sótt um töku til viðskipta á fyrrgreindum hlutum. Taldi félagið rök ekki standa til þess að það yrði gert og hafa því hlutirnir ekki verið teknir til viðskipta í Kauphöllinni.

Reglur Kauphallarinnar samkvæmt ákvæði 1.1.7 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni skal umsókn um töku hlutabréfa til viðskipta ná til allra útgefinna hlutabréfa í sama flokki. Í skýringum með ákvæðinu er skýrt kveðið á um að sækja skuli um töku hlutabréfa til viðskipta á öllu útgefnu hlutafé í viðkomandi flokki hlutabréfa. Einnig kemur þar fram í 2. ml. að öll síðari útgáfa nýrra hlutabréfa og taka þeirra til viðskipta skuli vera í samræmi við venjur Kauphallarinnar um töku hlutabréfa til viðskipta og skilyrði sem koma fram í löggjöf. Í samræmi við þetta hefur það verið venja og skylda samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 245/2006 að þegar félag hefur tekið ákvörðun um að hækka hlutafé skuli það sækja um skráningu á hinu nýja hlutafé um leið og viðskipti með það geti hafist.

Niðurstaða

Kauphöllin telur ljóst að Exista hafi verið skylt að sækja um skráningu á nýju hlutafé sem gefið var út í kjölfar ákvörðunar félagsins um að hækka hlutafé um 50 milljarða. Ekkert er fram komið í málinu sem gefur til kynna að viðskipti hafi ekki getað hafist með hlutabréfin um leið og þau voru gefin út. Engar undanþágur eru veittar í ákvæði 1.1.7 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni frá þeirri skyldu að nýútgefin hlutabréf í sama flokki og önnur hlutabréf sem þegar eru í viðskiptum í kauphöll, verði tekin til viðskipta um leið og viðskipti með þau geta hafist. Telur Kauphöllin það brjóta gegn grundvallarforsendum um viðskipti á skipulegum markaði að einungis um 22% af hlutafé félags í sama flokki séu í viðskiptum hverju sinni.

Ekki verður horft hjá því að Exista virðist af ásetningi hafa litið hjá skyldu félagsins til að fá umrædda hluti tekna til viðskipta og var Kauphöllinni ekki tilkynnt um fyrirhugaðar aðgerðir félagsins. Ekki fæst séð að fyrirhuguð taka hlutabréfa félagsins úr viðskiptum geti heimilað undanþágu frá skýru ákvæði reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni og ákvæðum löggjafar.

Loks skal tekið fram að með því að koma sér hjá því að fá hlutina tekna til viðskipta í Kauphöllinni í samræmi við lög og reglur hefur félagið vikið sér undan skyldu félagsins til að veita upplýsingar í lýsingu vegna töku hlutanna til viðskipta. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 44. gr. wl. er taka verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði háð útgáfu lýsingar. Það er því ljóst að hefði félagið sinnt þeirri skyldu sem lögð er á félagið samkvæmt ákvæði 1.1.7 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga og 8. gr. reglugerðar nr. 245/2006 hefði félagið þurft að útbúa lýsingu í samræmi við fyrrgreint ákvæði vvl. Þar sem félagið hefur ekki sótt um að fá hlutina tekna til viðskipta hefur lýsing ekki verið birt.

Með því telur Kauphöllin Exista hafa brotið alvarlega gegn rétti fjárfesta á því að fá upplýsingar um útgefanda hlutabréfa og verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta. Umræddir 50 milljarðar hluta voru, samkvæmt tilkynningu frá Exista um viðskipti innherja sem birt var 8. desember sl., seldir á genginu 0,02 en gengið í síðustu viðskiptum með hlutabréf félagsins sem fóru fram 3. október sl. var 4,62. Þess má einnig geta að vegið meðalverð í viðskiptum með hlutabréf Exista frá 9. desember til 18. desember, þ.e. á tímabilinu sem liðið er eftir að opnað var fyrir viðskipti með bréfin á ný, er 0,05. Félagið hefur birt mjög takmarkaðar upplýsingar um fjárhagsstöðu sína frá lokum þriðja ársfjórðungs og eru því miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir fjárfesta og hluthafa Exista að fá upplýsingar um stöðu félagsins sem skylt er að birta í lýsingu.

Þegar hafðir eru í huga hagsmunir fjárfesta og hluthafa Exista af því að fyrrgreindir hlutir séu teknir til viðskipta um leið og viðskipti geta hafist með þá og lýsing sé útbúin í samræmi við skilyrði laga, þá verður að telja að þrátt fyrir að Exista hafi sótt um töku hlutabréfa félagsins úr viðskiptum sé ekki hægt að réttlæta að umræddir hlutir verði ekki teknir til viðskipta eins og skylt er samkvæmt ákvæði 1.1.7 í reglum Kauphallarinnar. Exista hefur með samningi við Kauphöllina um töku hlutabréfa félagsins til viðskipta skuldbundið sig til að uppfylla ákvæði reglna Kauphallarinnar um skráningu verðbréfa og aðrar skyldur sem gilda um útgefendur fjármálagerninga samkvæmt lögum, reglugerðum og reglum Kauphallarinnar hverju sinni. Var útgefanda því skylt samkvæmt samningi við Kauphöllina að fylgja ákvæði 1.1.7 í reglum Kauphallarinnar, sbr. fyrrgreind ákvæði vvl. og reglugerðar 245/2006.

Ljóst þykir að Exista hafi ekki sinnt þeim skyldum sem hvíla á félaginu samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum og samningi við Kauphöllina þar sem félagið sótti ekki um töku til viðskipta á 50 milljörðum hluta í Exista sem gefnir voru út í kjölfar ákvörðunar stjórnar um hækkun hlutafjár. Þegar horft er til málavaxta og að teknu tilliti til framkominna raka Exista telur Kauphöllin að félagið hafi með háttsemi sinni í umræddu tilfelli brotið gegn ákvæði 1.1.7 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

2. Upplýsingar um fjárhagsstöðu Exista

Þann 25. október sl. kom Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, fram í sjónvarpsviðtali við Björn Inga Hrafnsson í þættinum Markaðurinn á Stöð 2. Í viðtalinu komu meðal annars fram upplýsingar um stöðu Exista og kröfur félagsins á hendur íslensku bönkunum.

Um þetta segir stjórnarformaðurinn í viðtalinu:

„...Ef við fáum leyst úr kröfum okkar við íslensku bankana þá munum við lifa og þau félög sem hjá okkur starfa.“ ... „Staðan er vægast sagt óljós. Ég veit það ekki sjálfur einu sinni hvar málið liggur en náttúrulega menn hafa verið afar uppteknir af því að bjarga skútunni, þjóðarskútunni það er að segja, undanfarna daga og væntanlega mun þetta skýrast á komandi vikum og mánuðum. Á meðan erum við alveg starfhæfir og svona eigum fyrir salti í grautinn hjá Exista til að borga fólkinu okkar laun o.s.frv. En staðan er óljós og erfið.“

Þann 27. október sl. fór Kauphöllin fram á það við Exista að félagið birti upplýsingar um stöðu krafna á hendur íslensku bönkunum og fjárhagslega stöðu þess. Útgefandi birti tilkynningu 30. október sl. þar sem fram kom að staða félagsins væri óljós, meðal annars vegna þess að félagið ætti umtalsverðar eignir í íslensku bönkunum í formi innstæðna og óuppgerðra samninga sem biðu úrlausnar. Einnig kom fram að félagið ætti í viðræðum við innlenda og erlenda kröfuhafa um að greiða úr málum félagsins.

Þann 6. nóvember sl. fór Kauphöllin fram á skýringar á því frá félaginu af hverju upplýsingar sem höfðu komið fram í viðtali við stjórnarformann félagsins og í tilkynningu þess frá 30. október höfðu ekki verið birtar eins fljótt og unnt var í samræmi við reglur Kauphallarinnar og áður en viðtalið var birt við stjórnarformann félagsins.  Einnig var óskað skýringa á því af hverju Exista birti ekki frekari upplýsingar um óvissu í tengslum við fjárhagsstöðu félagsins og þá sérstaklega um þau atriði sem væru til þess fallin að hafa áhrif á verð hlutabréfa félagsins, s.s. umfang krafna félagsins á hendur íslensku bönkunum, hvort félagið hefði vitneskju um það hversu stór hluti krafnanna myndi fást greiddur og hvaða áhrif það hefði eða gæti haft á fjárhagsstöðu og afkomu Exista ef kröfurnar fengust ekki greiddar að fullu. Loks var lögð rík áhersla á mikilvægi þess að allar upplýsingar sem gætu haft marktæk áhrif á markaðsverð verðbréfa félagsins væru birtar í samræmi við reglur Kauphallarinnar og vvl.

Í framhaldinu áttu sér stað töluverð samskipti milli Kauphallarinnar og Exista þar sem Kauphöllin fór fram á frekari skýringar á fyrrgreindum atriðum og lagði áherslu á mikilvægi þess að Exista virti skyldu sína, sem félag sem tekið hefur verið viðskipta í kauphöll, til að uppfæra upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins eins fljótt og unnt væri og um leið og ljóst væri að þær upplýsingar sem væru opinberar gæfu ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu félagsins.

Var þar meðal annars horft til þeirra upplýsinga sem fram höfðu komið í uppgjöri  félagsins fyrir þriðja ársfjórðung og birt var opinberlega 27. nóvember sl. Miðaði uppgjörið við stöðu félagsins 30. september. Þann 17. desember sl. birti félagið upplýsingar þar sem m.a. var lagt mat á kröfur þess á hendur bönkunum

Reglur Kauphallarinnar Í ákvæði 2.1 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni kemur fram að félagi beri, eins fljótt og unnt er, að birta upplýsingar um ákvarðanir eða aðrar forsendur og aðstæður sem eru verðmótandi. Í 2. ml. ákvæðisins segir að verðmótandi upplýsingar skuli túlka sem þær upplýsingar sem ástæða sé til að ætla að geti haft marktæk áhrif á markaðsverð verðbréfa félagsins.

Meginreglan um tímasetningu birtingar samkvæmt reglunum kemur fram í ákvæði 2.3 en þar segir að allar upplýsingar sem reglurnar taki til skuli birta opinberlega eins fljótt og unnt er. Enn fremur segir þar að ef verðmótandi upplýsingum er af ásettu ráði komið á framfæri við þriðja aðila sem ekki er bundinn þagnarskyldu skuli birta upplýsingar opinberlega samtímis. Í ákvæði 2.4 segir að sé verðmótandi upplýsingum óviljandi komið á framfæri við þriðja aðila sem ekki er bundinn þagnarskyldu skuli birting fara fram þegar í stað.

Niðurstaða

Kauphöllin telur ljóst að mikil óvissa hafi ríkt um fjárhagsstöðu Exista undanfarið. Verður að telja að óvissan hafi verið slík að sérlega brýnt hafi verið að félagið greindi nánar frá því í hverju hún fælist og legði mat á hana með þeim hætti að fjárfestar væru upplýstir með fullnægjandi hætti.

Í viðtali við Lýð Guðmundsson, stjórnarformann Exista, í þættinum Markaðnum á Stöð 2 þann 25. október sl. var gefið í skyn að framtíð Exista réðist af því hvort leyst yrði úr kröfum félagsins á hendur íslensku bönkunum. Á þeim tíma sem viðtalið var birt höfðu engar upplýsingar verið birtar opinberlega um fjárhagslega stöðu Exista frá því félagið birti hálfsársuppgjör 1. ágúst sl. Telur Kauphöllin þær upplýsingar sem fram komu í viðtali við stjórnarformann félagsins hafa verið þess eðlis að þær væru til þess fallnar að hafa marktæk áhrif á verð hlutabréfa félagsins.

Ekki var ljóst á þeim tímapunkti að kröfur félagsins á hendur íslensku bönkunum gætu leitt til falls Exista. Verður því að telja að félaginu hafi borið að birta opinberlega tilkynningu eins fljótt og unnt var þar sem fram kæmi mat félagsins á fjárhagslegri stöðu þess. Tilvísanir í almennt ástand á mörkuðum og erfiðleika í rekstri fjármálafyrirtækja geta ekki komið í stað opinberrar birtingar á upplýsingum.

Þrátt fyrir að fjárhagsstaða margra íslenskra fyrirtækja og þá sérstaklega fjármálafyrirtækja hafi verið erfið og rekstrarskilyrði þeirra mjög skert þá telur Kauphöllin ljóst að munur sé þar á milli fyrirtækja og fjárfestum gat með engu móti verið ljóst hversu erfið staða Exista var gagnvart bönkunum og í hverju óvissa um fjárhagslega stöðu félagsins fólst. Það er því enn fremur ljóst að félaginu bar að leggja mat á það í hverju óvissan um framtíð félagsins fælist og birta opinberlega tilkynningu um uppfærða fjárhagsstöðu félagsins þegar ljóst var að forsendur fyrir rekstri þess hefðu breyst með þessum hætti.

Kauphöllin telur ljóst að brotið hafi verið gegn ákvæðum 2.3 og 2.4 í reglum Kauphallarinnar þar sem stjórnarformaður félagsins kom á framfæri verðmótandi upplýsingum áður en birting þeirra átti sér stað. Enn fremur verður að telja alvarlegt brot á reglum Kauphallarinnar að félagið birti engar upplýsingar um þau atriði sem komu fram í umræddu viðtali fyrr en í tilkynningu, dags. 30. október sl., þ.e. fimm dögum eftir að viðtalið var birt í sjónvarpi. Verður að telja að þær upplýsingar sem þar komu fram hafi ekki fullnægt upplýsingaskyldu félagsins.

Í því sambandi má meðal annars nefna að engar upplýsingar voru birtar um mat félagsins á því hverjar afleiðingarnar hefðu getað orðið fyrir félagið ef ekki yrði leyst úr kröfum á hendur bönkunum en samkvæmt því sem fram kom í viðtali við stjórnarformann Exista gat óvissan um þær kröfur leitt til falls félagsins. Kauphöllin telur að félagið hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt ákvæðum 2.1, 2.3 og 2.4 í reglum Kauphallarinnar þar sem gert er ráð fyrir að allar verðmótandi upplýsingar séu birtar eins fljótt og unnt er. Fyrrgreindar upplýsingar um fjárhagsstöðu Exista og óvissu um framtíð þess hefðu átt að vera birtar opinberlega áður en viðtalið við stjórnarformann félagsins var birt í sjónvarpi. Er sú niðurstaða í samræmi við fyrrgreind ákvæði í reglum Kauphallarinnar.

Varðandi tilkynningar félagsins sem birtar voru opinberlega 30. október, 7. nóvember og 27. nóvember þá telur Kauphöllin þær upplýsingar sem þar komu fram ófullnægjandi með tilliti til skyldu félagsins til að birta opinberlega upplýsingar í samræmi við reglur Kauphallarinnar. Þær upplýsingar sem þar komu fram gáfu mjög óskýra mynd af stöðu félagsins. Einungis var vísað til þess að staða félagsins væri óljós, meðal annars vegna þess að félagið ætti umtalsverðar eignir í íslenskum bönkum í formi innstæðna og óuppgerðra samninga sem biðu úrlausnar.

Telur Kauphöllin ámælisvert að nánari upplýsingar um stöðu félagsins voru ekki birtar opinberlega. Í uppgjöri félagsins vegna þriðja ársfjórðungs sem birt var opinberlega 27. nóvember sl. komu m.a. fram upplýsingar um lausafjárstöðu félagsins. Kom fram að hinn 30. september hefði Exista tryggt lausafé til að mæta endurfjármögnun til næstu 51 viku og hefði því lausafé til að standast skuldbindingar sem féllu á gjalddaga fram til loka þriðja ársfjórðungs 2009. Enn fremur kom fram að tryggt lausafé teldist samansett af 51% handbæru fé og 49% tryggðum lánalínum. Upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins sem hafa verið aðgengilegar fjárfestum opinberlega voru ekki uppfærðar með fullnægjandi hætti og verður því að telja að þær upplýsingar sem lágu fyrir, þ.e. fjárhagsupplýsingar úr uppgjöri félagsins, hafi getað talist villandi ef horft er til þeirra breytinga sem hafa orðið á fjárhagsstöðu félagsins í kjölfar falls íslensku bankanna. Þrátt fyrir almenna fyrirvara í uppgjörinu um óljósa stöðu félagsins eftir lok reikningstímabilsins verður að telja að félaginu hafi borið skylda til að uppfæra þær upplýsingar sem komu fram í uppgjöri félagsins að því marki sem hægt var.

Telur Kauphöllin að gera verði þá kröfu til félags sem er með verðbréf í viðskiptum í kauphöll að það leggi með einhverjum hætti mat á fjárhagsstöðu félagsins þegar hún er svo óljós eins og hér var og opinberar upplýsingar uppfærðar með tilliti til mats félagsins á óvissunni. Hefði Exista í þeim efnum t.d. getað lagt mat á heildarvirði krafna á hendur bönkunum, veitt upplýsingar um það hvers konar kröfur um var að ræða og hvaða áhrif það hefði á félagið ef ekki fengist leyst úr kröfum á hendur bönkunum. Hefðu slíkar upplýsingar veitt fjárfestum einhverjar forsendur sem hefðu getað nýst við að meta virði hlutabréfa félagsins. Með því að færast undan því að uppfæra helstu fjárhagsupplýsingar að því leyti sem hægt var hefur Exista aukið hættu á því að ójafnræði skapist meðal fjárfesta varðandi aðgang að upplýsingum.

Ekki er hægt að líta á það sem rök fyrir því að birta ekki upplýsingar að lokað hafi verið fyrir viðskipti með verðbréf Exista frá 6. október til og með 8. desember sl. Þrátt fyrir að ekki hafi verið opið fyrir viðskipti með verðbréf félagsins í Kauphöll á þessum tíma var hægt að eiga viðskipti með verðbréfin utan Kauphallar. Einnig skal horft til þess að á þessu tíma boðaði félagið til hluthafafundar, sem fram fór 30. október sl., en þar voru víðtækar heimildir veittar stjórn félagsins til aðgerða. Mat félagsins á fjárhagslegri stöðu þess var fyrst birt opinberlega 17. desember sl. en opnað var fyrir viðskipti með verðbréf Exista 9. desember sl. Höfðu því fjárfestar einungis ófullnægjandi og ónákvæmar upplýsingar til að byggja á við mat sitt á virði hlutabréfa félagsins og þeim málefnum er það varðar.

Að lokum verður að líta til þess að þann 8. desember sl. ákvað stjórn félagsins að hækka hlutafé um 50 milljarða hluti. Voru hlutirnir seldir fyrir 1 milljarð króna á genginu 0,02. Síðustu viðskipti með bréfin höfðu verið framkvæmd 3. október sl. á genginu 4,62. 9. desember var opnað fyrir viðskipti með bréfin eftir að lokað hafði verið fyrir viðskipti frá 3. október. Vegið meðalverð í viðskiptum með hlutabréf Exista frá 9. desember til 18. desember var 0,05.

Ef horft er til þessa verður að telja að sérstaklega mikilvægt hefði verið fyrir fjárfesta og hluthafa félagsins að fá upplýsingar um hvaða forsendur hafi legið að baki verðmati við sölu á fyrrgreindum 50 milljörðum hluta á genginu 0,02. Á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram voru litlar sem engar uppfærðar upplýsingar opinberar um fjárhagsstöðu félagsins og var því erfitt fyrir fjárfesta og hluthafa að meta hverjar forsendur stjórnar Exista voru fyrir ákvörðun um gengi í viðskiptunum. Verður því að telja að mjög brýnt hefði verið að veita fjárfestum upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins áður en ákvörðunin var tekin um sölu hlutabréfanna.

Útgefandi verðbréfa ber ábyrgð á því að upplýsingar sem geta talist hafa marktæk áhrif á markaðsverð verðbréfa hans séu birtar í samræmi við ákvæði reglna Kauphallarinnar og að slíkar upplýsingar komi ekki fram í fjölmiðlum áður en þær eru gerðar opinberar með fullnægjandi hætti í samræmi við fyrrgreind ákvæði. Þegar hafðir eru í huga hagsmunir fjárfesta er brýnt að allar upplýsingar sem skylt er að birta samkvæmt reglum Kauphallarinnar séu birtar opinberlega eins fljótt og unnt er og innan þeirra tímamarka sem þar er kveðið á um. Exista hefur með samningi við Kauphöllina um töku hlutabréfa félagsins til viðskipta gengist undir reglur Kauphallarinnar um upplýsingagjöf. Er Exista því skylt að birta allar þær upplýsingar sem reglurnar taka til án tafar eða eins fljótt og unnt er, sbr. ákvæði 2.3 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Ljóst þykir að félagið sinnti ekki þeim kröfum sem gerðar eru í reglunum til upplýsingagjafar þar sem ofangreindar upplýsingar um fjárhagsstöðu Exista voru ekki birtar opinberlega um leið og þær voru tiltækar. Þegar horft er til málavaxta og að teknu tilliti til framkominna raka Exista telur Kauphöllin að félagið hafi með háttsemi sinni í umræddu tilfelli brotið gegn ákvæðum 2.1, 2.3 og 2.4 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Ákvörðun Kauphallarinnar vegna brota Exista hf.

Kauphöllin áminnir Exista opinberlega og beitir félagið févíti að fjárhæð kr. 4.000.000 fyrir ofangreind brot á reglum Kauphallarinnar. Kauphöllin álítur að með háttsemi sinni hafi félagið gerst brotlegt við ákvæði 1.1.7, 2.1, 2.3 og 2.4  í reglunum.

Ákvörðun um opinbera áminningu og beitingu févítis er tekin á grundvelli samnings Exista við Kauphöllina um töku fjármálagerninga félagsins til viðskipta í Kauphöllinni, sbr. ákvæði 8.3 í reglum Kauphallarinnar. Í 4. tölulið ákvæðisins segir meðal annars að vegna brota útgefanda á reglum Kauphallarinnar sé Kauphöllinni heimilt að birta opinbera yfirlýsingu varðandi umrætt mál. Í 6. tl. er heimild fyrir Kauphöllina að beita útgefanda viðurlögum í formi févítis.