Kauphöllin hefur ákveðið að áminna Milestone ehf. opinberlega og beita févíti að andvirði 1,5 milljóna króna þar sem útgefandi er talinn hafa gerst brotlegur við ákvæði reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni en málavextir eru þeir að þann 15. nóvember sl. birtist grein í fjölmiðlum um fjárhagsstöðu Milestone. Var því haldið fram í greininni að Milestone hefði ekki greitt víxil sem var á gjalddaga 26. október 2008. Fram kemur að tilkynning frá Milestone þess efnis var síðar birt opinberlega 19. nóvember sl.

Í kjölfarið fór Kauphöllin fram á formlegar skýringar á því af hverju tilkynning um drátt á greiðslum vegna víxilsins var ekki birt opinberlega um leið og útgefanda varð ljóst að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum víxilsins samkvæmt reglum Kauphallarinnar.

Fram kemur í tilkynningu Kauphallarinnar að Milestone hafi vísað til þess að öllum hefði átt að vera ljóst að flest fyrirtæki á Íslandi væru tæknilega ógjaldfær og því hefði ekki verið talin þörf á að birta tilkynningu um drátt á afborgunum af fyrrgreindum verðbréfum.

„Upplýsingar um fjárhagsstöðu útgefanda og greiðsluörðugleika eru upplýsingar sem útgefandi mátti vita að væru til þess fallnar að hafa marktæk áhrif á markaðsverð verðbréfa hans, sbr. gr. 4.2.1 í reglum Kauphallarinnar;“ segir í tilkynningu Kauphallarinnar.

„Kauphöllin leggur áherslu á að þó svo að ljóst sé að mörg íslensk fyrirtæki hafi staðið illa á þeim tíma sem umræddur víxilflokkur féll í gjalddaga þá var ekki hægt að fullyrða um hvort útgefandi eða önnur íslensk fjármálafyrirtæki gætu staðið við skuldbindingar sínar. Þegar ljóst er að útgefandi verðbréfa mun ekki geta staðið við skuldbindingar samkvæmt skilmálum útgefinna verðbréfa, s.s. greiðslu á afborgunum höfuðstóls og/eða vaxta, þá er brýnt að fjárfestar séu upplýstir um það, sbr. gr. 4.2.2 í reglum Kauphallarinnar.“