NASDAQ OMX Iceland hf. (Kauphöllin) hefur ákveðið að áminna Reykjanesbæ opinberlega vegna atvika þar sem Reykjanesbær, útgefandi skuldabréfaflokks, er talinn hafa gerst brotlegur við ákvæði reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Er Reykjanesbær, útgefandi skuldabréfanna, talinn hafa brotið gegn ákvæðum 4.1.2, 4.1.3, 4.1.4 og 4.2.1 í reglunum.

Tilkynnti ekki til Kauphallar

Í fjölmiðlum þann. 30. ágúst 2010 var fjallað um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar. Þar var m.a. umfjöllun um erlent lán að jafnvirði 1,8 milljarða króna sem var á gjalddaga 2. ágúst og ekki var greitt af. Samdægurs hófust bréfaskriftir milli Kauphallarinnar og Reykjanesbæjar þar sem Kauphöllin óskaði m.a. skýringa á því hvort þær upplýsingar sem komu fram í umfjöllun um Reykjanesbæ í fjölmiðlum hefðu verið réttar og, ef svo væri, hvort útgefandi teldi að um verðmótandi upplýsingar væri að ræða. Í kjölfar þess voru skuldabréf Reykjanesbæjar færð á Athugunarlista, þann 1. september 2010.

Í svörum útgefanda kom m.a. fram að Reykjanesbær ætti í viðræðum við banka varðandi greiðslu á erlenda láninu sem var á gjalddaga í byrjun ágústmánaðar.Einnig kom fram að vaxtagreiðslan sem var á gjalddaga 2. ágúst hefði verið greidd en ekki höfuðstóllinn og af þeim ástæðum, sem og þeirri staðreynd að viðræðum væri ekki lokið, hefði ekki verið um verðmótandi upplýsingar að ræða, að mati Reykjanesbæjar.

Fallast ekki á skýringar Reykjanesbæjar

Kauphöllin fellst ekki á þá skýringu útgefanda að ekki hafi verið um verðmótandi upplýsingar að ræða þar sem viðræður við bankann stæðu enn yfir og að vaxtagreiðsla vegna lánsins hefði verið innt af hendi. Það hlýtur að teljast til verðmótandi upplýsinga geti útgefandi skuldabréfa ekki greitt af skuldum sínum, óháð því hvort unnið sé að endurfjármögnun eða ekki, sbr. ákvæði 4.2.1 í reglum Kauphallarinnar. Tækist ekki að semja um endurfjármögnun gætu lánadrottnar farið fram á greiðslu og afleiðingar þess verið alvarlegar, í ljósi þess að fjárhæð lánsins var umtalsverð. Reykjanesbæ bar því að birta tilkynningu um vænt greiðslufall í allra seinasta lagi þegar það lá fyrir að ekki tækist að endursemja við bankann áður en lánið féll á gjalddaga.

Ljóst er af svörum útgefanda að tilteknir lánardrottnar Reykjanesbæjar voru upplýstir um stöðuna en almennir skuldabréfaeigendur, sem og hugsanlegir fjárfestar, ekki. Með slíkri valkvæðri upplýsingagjöf til afmarkaðs hóps fjárfesta er verið að brjóta gegn jafnræði aðila á markaði um aðgang að upplýsingum sem kunna að hafa marktæk áhrif á markaðsverð verðbréfa útgefanda, sbr. ákvæði 4.1.3. Einnig skal tekið fram að útgefandi verðbréfa ber ábyrgð á því að upplýsingar sem geta talist hafa marktæk áhrif á markaðsverð verðbréfa hans komi ekki fram í fjölmiðlum áður en þær eru gerðar opinberar með fullnægjandi hætti í samræmi við fyrrgreind ákvæði. Því verður að hafa hliðsjón af því að útgefandi brást ekki við með því að upplýsa markaðinn um stöðuna þegar fjölmiðlar höfðu gert grein fyrir málinu og því ljóst að um leka var að ræða, né heldur í kjölfar fyrirspurna Kauphallarinnar.

Kauphöllinn áminnir því Reykjanesbæ opinberlega fyrir brot á reglum Kauphallarinnar.

Ákvörðun um opinbera áminningu er tekin á grundvelli samnings við Kauphöllina um töku fjármálagerninga útgefanda til viðskipta í Kauphöllinni.

Þetta segir í tilkynningu Kauphallarinnar.

Hér má lesa tilkynninguna.