Kauphöllin hefur ákveðið að áminna Ríkisútvarpið ohf. (RÚV) opinberlega vegna atvika þar sem RÚV er talið hafa gerst brotleg við ákvæði reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni en Kauphöllin telur RÚV hafi brotið gegn reglum Kauphallarinnar með því að birta ársreikning og ársuppgjör of seint.

Málavextir eru þeir að þann 21. apríl sl. birti RÚV ársreikning Ríkisútvarpsins fyrir tímabilið 1. janúar til 31. mars 2007 og ársuppgjör RÚV fyrir reikningstímabilið 1. apríl til 31. ágúst 2007.

Áður en ársreikningarnir voru birtir opinberlega hafði Kauphöllin átt í ítrekuðum samskiptum við útgefanda þar sem farið var fram á að upplýsingarnar væru birtar í samræmi við ákvæði reglna Kauphallarinnar.

Í tilkynningu frá Kauphöllinni kemur fram að það hafi ekki gerst og ávallt hafi verið vísað til þess að birting ársuppgjöra hefði tafist vegna gerðar stofnefnahagsreiknings RÚV.

Þá kemur fram að Samkvæmt reglum Kauphallarinnar skal útgefandi birta niðurstöður ársuppgjörs eigi síðar en þremur mánuðum frá lokum reikningsárs. Einnig kemur fram að útgefandi skuli senda tilkynningu vegna uppgjörs, strax að loknum stjórnarfundi þar sem reikningar félagsins eru formlega samþykktir. Samkvæmt reglunum ber útgefanda að birta án tafar eða eins fljótt og unnt er allar upplýsingar sem reglurnar taka til.

„Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum liggur ljóst fyrir að RÚV var skylt að birta ársreikning fyrir tímabilið 1. janúar til 31. mars 2007 um leið og stjórn samþykkti reikninginn en þó eigi síðar en 30. júní sama ár,“ segir í tilkynningu Kauphallarinnar.

„Eins og fram hefur komið var reikningurinn ekki samþykktur af stjórn fyrr en 18. mars 2008 og birtur opinberlega 21. apríl 2008. Það sama á við um ársreikning RÚV fyrir tímabilið 1. apríl til 31. ágúst 2007. Útgefanda var skylt að birta reikninginn um leið og hann var samþykktur af stjórn og eigi síðar en 30. nóvember 2007. Reikningurinn var þó ekki samþykktur af stjórn fyrr en 28. mars 2008 og birtur opinberlega 21. apríl 2008.“

Þá segir í tilkynningu Kauphallarinnar að sem útgefandi skuldabréfa í Kauphöllinni beri RÚV ábyrgð á því að upplýsingagjöf sé í samræmi við reglur Kauphallarinnar. Þannig sé útgefanda því skylt að birta allar þær upplýsingar sem reglurnar taka til án tafar eða eins fljótt og unnt er.

„Ljóst þykir að útgefandi sinnti ekki þeim kröfum sem gerðar eru í reglunum til upplýsingagjafar þar sem ársreikningar voru birtir annars vegar rétt um þrettán mánuðum eftir lok reikningstímabilsins að því er varðar ársuppgjör RÚV fyrir 1. janúar til 31. mars 2007 og hins vegar um átta mánuðum eftir lok reikningstímabilsins RÚV 1. apríl 2007 til 31. ágúst 2007,“ segir í tilkynningu Kauphallarinnar.

„Einnig voru reikningarnir fyrst birtir opinberlega um mánuði eftir að þeir voru samþykktir af stjórn. Þegar hafðir eru í huga hagsmunir fjárfesta er brýnt að allar upplýsingar sem skylt er að birta samkvæmt reglum Kauphallarinnar séu birtar opinberlega eins fljótt og unnt er og innan þeirra tímamarka sem þar er kveðið á um. Telur Kauphöllin svo langa töf á birtingu á ársuppgjöri brjóta gegn reglum Kauphallarinnar og með sama hætti getur seinkun á gerð stofnefnahagsreiknings ekki réttlætt að birting fari ekki fram um leið og stjórn hefur samþykkt ársreikning.“