*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 22. júní 2009 13:53

Kauphöllin: Bakkavör, Eimskipafélagið og Icelandair Group færð í flokk lítilla fyrirtækja

félögin munu færast til á milli flokka eftir markaðsvirði þann 1. Júlí 2009

Ritstjórn

Bakkavör Group, Eimskipafélagið og Icelandair Group verða öll færð í flokk lítilla fyrirtækja í Kauphöllinni um næstu mánaðarmót.

Félögin tilheyra í dag meðalstórum fyrirtækjum en samkvæmt tilkynningu frá Kauphöllinni verða þau færð sem fyrr segir í flokk yfir lítil fyrirtæki. Þá verða einnig breytingar í öðrum norrænum kauphöllum á félögum sem eru skráð þar.

Fram kemur í tilkynningunni að félög tilheyra flokkum eftir markaðsvirði („Lítil“ = Small Cap, „Meðalstór“ = Mid Cap og „Stór“ = Large Cap) og er miðað við meðalmarkaðsvirði þeirra í mánuði endurskoðunar.

Félög með markaðsvirði sem nemur 1 milljarði Evra eða meira tilheyra „stórum“ félögum, á meðan félög með markaðsvirði sem nemur minna en 150 milljónum Evra tilheyra „litlum“ félögum.

Félög með markaðsvirði sem nemur 150 milljónum Evra til eins milljarðs Evra tilheyra „meðalstórum“ félögum.