Kauphöllin hefur komist að þeirri niðurstöðu að áminna beri Icelandair Group hf. opinberlega vegna atvika þar sem félagið er talið hafa brotið gegn ákvæðum í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga. Er Icelandair að auki gert að greiða févíti að fjárhæð 1.500.000 kr. Kemur þetta fram í tilkynningu frá kauphöllinni.

Málsatvikum er lýst sem svo að þann 6. desember 2012 Icelandair opinberlega tilkynningu þar sem fram kom að útgefandi og Boeing hefðu undirritað viljayfirlýsingu um pöntun á tólf 737 MAX8 og 737 MAX9 flugvélum með kauprétti á tólf flugvélum til viðbótar. Fram kom að heildarverðmæti flugvélanna 12 væri samkvæmt listaverði Boeing um 1,2 milljarðar bandaríkjadala en að kaupverðið væri trúnaðarmál.

Nokkrum dögum fyrr, eða hinn 29. nóvember 2012, birtist í Viðskiptablaðinu ítarleg frétt sem Kauphöllin taldi að stórum hluta efnislega samhljóða tilkynningu útgefanda. Hinn 6. desember 2012, sama dag og tilkynning Icelandair var birt opinberlega, birtist í Viðskiptablaðinu önnur frétt um fyrirhuguð kaup útgefanda á nýjum flugvélum.

Kauphöllin sendi Fjármálaeftirlitinu ábendingu vegna málsins en að mati Kauphallarinnar voru vísbendingar um að upplýsingar um framgang, grundvöll og forsendur viðræðna félagsins við flugvélaframleiðendur hefðu getað talist innherjaupplýsingar hinn 29. nóvember 2012.

Kauphöllin telur að Icelandair Group hafi brotið gegn reglum með því að birta ekki upplýsingar um hin fyrirhuguðu flugvélakaup áður en fréttir birtust af þeim í Viðskiptablaðinu. Icelandair hefur mótmælt afstöðu Kauphallarinnar. Í meginatriðum hefur félagið borið því við að engin ákvörðun hafi legið fyrir um kaupin þegar fréttirnar birtust, fréttirnar hafi byggst á áður birtum upplýsingum og að upplýsingarnar hafi verið þess eðlis að þær gætu ekki hafa haft marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa félagsins.