Öll félög aðalmarkaðar Kauphallarinnar lækkuðu í 6 milljarða króna viðskiptum í dag, þar af lækkaði hlutabréfverð allra félaga nema Brims um meira en eitt prósent. Úrvalsvísitalan féll um 2,2% og stendur nú í 3.200 stigum.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í dag hafa hlutabréf víða um heim lækkað í dag en auknar væntingar er um að stærstu seðlabankar heims fari að draga úr magnbundinni íhlutun og hækka stýrivexti. Tæknifyrirtæki hafa leitt lækkanir á heimsmörkuðum í dag.

Sjá einnig: Miklar lækkanir á hlutabréfamörkuðum

Mesta veltan í íslensku Kauphöllinni var með hlutabréf Marels, eða um 1,9 milljarðar króna, sem lækkuðu um 2,4%. Gengi Marels stendur nú í 800 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í árslok 2020.

Næst mesta veltan var með bréf Kviku sem lækkuðu um 3,2% í 839 milljóna viðskiptum. Gengi Kviku stendur nú í 24,2 krónum. Arion banki lækkaði einnig um 2,2% og Íslandsbanki um 1,1%.

Skeljungur og Origo lækkuðu mest af öllum félögum Kauphallarinnar en lítil velta var þó með hlutabréf félaganna tveggja.