Nasdaq Iceland (Kauphöllin) hefur sent inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar vegna frumvarps til laga um tekjuskatt og staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Í umsögn Kauphallarinnar kemur fram að hún fagni þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er varða annars vegar hækkun frítekjumarks vaxtatekna og hins vegar útvíkkun þess yfir á arðstekjur og söluhagnað hlutabréfa í skráðum félögum. Telur Kauphöllin að ef frumvarpið verði að lögum gæti það skipt sköpum fyrir aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að vaxtarfjármagni, „fyrirtækjum sem viðbúið er að verði í framlínusveit okkar í viðspyrnu efnahagslífsins“.
„Aukin þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði getur ekki einungis skapað mikilvæga lífæð fyrir fjölbreytt og spennandi nýsköpunarfyrirtæki, sem þurfa fjármagn og sýnileika til að vaxa, heldur einnig gefið venjulegu fólki kost á að taka þátt í fjárfestingum sem væru annars einungis í boði fyrir útvalinn hóp," segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Útboð Icelandair olli nokkrum straumhvörfum hvað varðar þátttöku almennings á markaði, en fjölmargir nýir hluthafar litu þá dagsins ljós. Aukin þátttaka almennings býður upp á fjölbreyttari skoðanaskipti og þýðir að arður af fjárfestingum er ekki bundinn við fámennan hóp.“
Í tilkynningu frá Kauphöllinni vegna málsins segir að öflugur hlutabréfamarkaður sé mikilvægur hluti af innviðum allra þróaðra ríkja. Ísland sé þar engin undantekning og hafi hlutabréfamarkaðurinn t.a.m. gegnt afar mikilvægu hlutverki í endurreisn atvinnulífsins eftir hrun, þar sem brýn þörf var á því að koma mikilvægum fyrirtækjum í varanlegra eignarhald og gera þeim kleift að fjármagna sig á hagstæðari kjörum, samhliða því að auka gagnsæi í atvinnulífinu.
„Þrátt fyrir að íslenski hlutabréfamarkaðurinn standist samanburð við systurmarkaði sína í hinum Norðurlöndunum að flestu leyti þá er t.a.m. tilfinnanlegur skortur á litlum og meðalstórum fyrirtækjum úr tækni- og nýsköpunargeiranum á íslenska markaðnum. Eru það einmitt slík fyrirtæki sem brýnt er að efla á tímum sem þessum ekki síst vegna þess að lítil og meðalstór fyrirtæki eru einmitt þau fyrirtæki sem skapa flest störf. Markaðurinn getur þannig gegnt viðamiklu hlutverki í að efla hagvöxt sem fleiri njóta góðs af. Í nýtútgefinni skýrslu OECD um atvinnusköpun og hagþróun er einmitt bent á mikilvægi þess að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki vegna atvinnusköpunar,“ segir í tilkynningu Kauphallarinnar.