*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 19. október 2021 08:32

Kauphöllin á flugi

Kauphöllin hefur verið á fleygiferð að undanförnu. Forstjóri Kauphallarinnar ráðleggur nýliðum að fara sér hægt og leita sér ráðgjafar.

Ritstjórn
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands.
Eyþór Árnason

Íslenska kauphöllin hefur verið á fleygiferð síðustu misseri. Hvert hækkunarmetið á fætur öðru hefur fallið, fjöldi hluthafa hefur margfaldast og skráð félög hafa ekki verið fleiri frá hruni. Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, segist finna vel fyrir uppganginum og hinum auknum áhuga á hlutabréfamarkaðnum.

Fjögur félög voru skráð á markað í sumar. Síldarvinnslan og Íslandsbanki komu inn á aðalmarkað kauphallarinnar en leikjafyrirtækið Solid Clouds og flugfélagið Play á First North markaðinn, sem ætlaður er minni fyrirtækjum. Margföld umframeftirspurn var í hlutafjárútboðum í aðdraganda skráningar félaganna. Skráningarnar voru þær fyrstu frá árinu 2018.

„Útboðin í sumar heppnuðust sérlega vel. Það má segja að útboðið hjá Icelandair í september á síðasta ári hafi gefið tóninn og svo hafi hvert útboðið verið öðru betra. Útboð Íslandsbanka sló auðvitað Íslandsmet," segir Magnús.

Í útboði Íslandsbanka bárust tilboð upp á 486 milljarða króna, ríkið seldi 35% hlut í bankanum fyrir 55 milljarða króna en 24 þúsund tóku þátt í útboðinu.Nú eru 26 félög eru skráð í Kauphöllina, þar af tuttugu á aðalmarkaði og sex á First North markaðnum. Um mitt árið áttu 32 þúsund einstaklingar hlutabréf í skráðum félögum og hafði þá fjöldi einstaklinga fjórfaldast á átján mánuðum en átta þúsund einstaklingar áttu hlutabréf í árslok 2019.

Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga fór í sumar yfir 2.000 milljarða króna og hafði þá tvöfaldast frá árinu 2019.

Taki ekki of stór skref í einu

Margir einstaklingar hafa að undanförnu verið að taka sín fyrstu skref á hlutabréfamarkaðnum.

„Þó að maður taki því opnum örmum á markaðnum ráðlegg ég samt að fara sér hægt, leita sér ráðgjafar og lesa sig til. Það eru ráðgjafar hjá öllum verðbréfafyrirtækjum og bönkum sem hægt er að leita til - og svo ræða við þá sem eru í sínum innsta hring. Ég myndi eindregið hvetja fólk til þess að fara fetið á meðan það er að læra og passa upp á skynsamlega eigna og áhættudreifingu."

Kauphöllin hefur boðið upp á fræðsluviðburði sem Magnús segir hafa verið vel sótta og geti gagnast þeim sem vilji kynna sér málið betur. „Við finnum það á öllum viðburðum sem við höldum að áhuginn er mikill."

Vongóður um fleiri skráningar

Magnús segist vongóður um að fleiri félög muni bætast við í Kauphöllina á næstunni. „Þessar breyttu markaðsaðstæður hafa leitt af sér aukinn áhuga á að skrá fyrirtæki á markað. Við erum í viðræðum við allmörg félög sem hafa sett stefnuna á skráningu."

Þá hafi faraldurinn sýnt fram á að íslenskt efnahagslíf standi á traustum grunni sem birtist meðal annars í hækkunum á gengi félaga í kauphöllinni.

„Hlutabréfaverð mun koma til með að sveiflast hér eins og annars staðar. En ef við horfum á sértæka áhættu hér á einhverskonar áfalli þá lítur staðan öðru vísi út en fyrir fjármálahrunið. Þjóðhagslegu stærðirnar eru allt aðrar. Bankarnir eru mun hefðbundnari og mjög vel fjármagnaðir. Við höfum verið með mikinn viðskiptaafgang og safnað upp eignum erlendis, Seðlabankinn er með stóran gjaldeyrisforða. Covidkrísan hefur verið eins konar álagspróf á hagkerfið og markaðinn vegna mikilvægis ferðaþjónustunnar og við höfum staðið hana ágætlega af okkur."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.