Kauphöllin gerir ekki lengur athugasemdir við hæfi Jóns Sigurðssonar, nýkjörins stjórnarmanns í N1, til að sitja í stjórnum skráðra félaga. Þessu greinir RÚV frá.

Eins og VB.is greindi frá bauð Jón sig fram til stjórnarsetu í N1 í mars en dró svo framboð sitt til baka eftir að Kauphöllin gerði athugasemdir við hæfi hans til að gegna stjórnarstörfum í skráðu félagi. En efasemdirnar um hæfi Jóns snerust um þrjár áminningar sem Kauphöllin veitti FL Group og síðar Stoðum fyrir brot á reglum hennar á meðan Jón var forstjóri félagsins.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinna, segir í samtali við RÚV að verklag Kauphallarinnar miði við það að þegar fimm ár eru liðin frá þeim atburðum sem urðu tilefni til athugasemda, þá getur viðkomandi farið fram á endurmat. Jón óskaði eftir endurmati þegar þessi tímamörk voru liðin, hefur það nú farið fram og er þetta niðurstaða Kauphallarinnar.