Nýjar áætlanir Kauphallar Íslands gera ráð fyrir að 15 ný fyrirtæki verði skráð í Kauphöllina á næsta ári. Að sögn Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallarinnar, hafa starfsmenn Kauphallarinnar að undanförnu fundað með mörgum félögum, bæði að eigin frumkvæði og þeirra og í framhaldi þess hefur þessi áætlun verið gerð. Hann sagðist bjartsýn á að þetta gæti orðið að veruleika.

,,Það er mikið að gerast í þessu efni, hvort sem það leiðir til skráningar fyrirtækja fyrir eða eftir áramót,“ sagði Þórður. Hann sagðist gera ráð fyrir að stærri hlutinn kæmi inn á seinni hluta ársins en það gæti engu að síður farið að tínast félög inn á markaðinn á fyrri hluta ársins.

„Við vitum að bankarnir eru fullir af fé og við höfum orðið töluvert mikið vör við aukinn áhuga á að skoða hlutabréfamarkaðinn.

Við erum að upplifa það með ýmsum hætti. Meðal annars höfum við átt fundi með allmörgum fyrirtækjum og verið að fara yfir kosti og galla þess að skrá félög við núverandi aðstæður. Ekkert slíkt var að eiga sér stað fyrir hálfu ári síðan heldur eru menn að sjá núna að hlutabréfamarkaðurinn hefur ágætar forsendur til að ná sér á ný. Tímasetningin við að koma inn á hlutabréfamarkaðinn við slíkar aðstæður, neðst í hagsveiflunni, er býsna aðlaðandi.“

Hlutabréfamarkaðurinn rétti sig við á næsta ári

Að sögn Þórðar hefur Kauphöllin unnið með þessa áætlun allt síðan fyrstu efnahagsáætlanirnar eftir hrunið litu dagsins ljós. Áætlanir Kauphallarinnar gerðu ráð fyrir að skuldabréfamarkaðurinn yrði orðin í lagi á þessu ári en hlutabréfamarkaðurinn myndi rétta sig við á næsta ári.

,,Við vorum í byrjun ekki með nákvæmar upplýsingar um fjölda fyrirtækja en að hann yrði verulegur. Það sem hefur verið að gerast á síðustu vikum hefur verið frekar uppörvandi og þá horft í þá átt að það gæti verið skilyrði til þess að ná þessum markmiðum."

Að sögn Þórðar eru engin félög enn búinn að setja sig inn í skráningarferli.