*

föstudagur, 23. ágúst 2019
Innlent 17. apríl 2019 16:05

Kauphöllin hafnar beiðni Heimavalla

Kauphöllin hefur hafnað því að taka hlutabréf Heimavalla hf. úr viðskiptum á Aðalmarkaði

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Kauphöllin hefur hafnað því að taka hlutabréf Heimavalla hf. úr viðskiptum á Aðalmarkaði. Er þessi ákvörðun tekin með hliðsjón af því að brotthvarf félagsins væri til þess fallin að valda fjárfestum verulegu tjóni og haft neikvæð áhrif á trúverðugleika markaðarins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þann 21. mars barst Kauphöllinni beiðni frá Heimavöllum um að bréfin yrðu tekin úr viðskiptum á aðalmarkaði. Beiðnin hafði verið samþykkt á aðalfundi félagsins með 81,3 prósentum atkvæða en 18,7 prósent greiddu atkvæði gegn henni. Tillagan var lögð fram fyrir aðalfund af Snæbóli ehf., Gana ehf. og Klasa ehf.

Röksemdir félagsins voru meðal annars þær að félagið hafi ekki fengið góðar móttökum frá aðilum á markaðnum en það birtist best í því að verðlagning bréfa hafi verið metin 35 prósent undir bókfærðu virði efnahagsreiknings. Þá hafi skuldabréfaútgáfa í desember 2018 ekki staðið undir væntingum. Þá hafi hluthöfum fækkað verulega og eignarhald sé ekki nægilega dreift en tuttugu stærstu hluthafar þess eiga um 77 prósent af bréfunum.

Fyrir liggur valfrjálst tilboð í allt að 27 prósent hlutafjár en það tilboð var háð því að Kauphöllin samþykkti að taka bréfin af markaði. Að mati Kauphallarinnar samrýmist slíkt ekki ásættanlegu verklagi við töku hlutabréfa úr viðskiptum enda gefi það ekki færi á að kanna afstöðu hluthafa til töku hlutabréfa úr viðskiptum að tilboði loknu segir í tilkynningunni.

Er það því niðurstaða Kauphallarinnar að viðskipti með bréf í Heimavöllum verði áfram á Aðalmarkaði.