Kauphöllin á Íslandi, NASDAQ OMX Iceland, hóf í dag útreikning á 10 ára óverðtryggðri skuldabréfavísitölu. Útreikningur óverðtryggðrar vísitölu með svo langan líftíma varð nýlega mögulegur í kjölfar fyrstu útgáfu Lánamála ríkisins á 20 ára óverðtryggðum ríkisbréfaflokki.

„Það er okkur ánægjuefni að auka þjónustu okkar við fjárfesta á skuldabréfamarkaði. Vísitölur Kauphallarinnar gera fjárfestum kleift að greina þróun á markaðnum eftir því hvort fjárfest er til skamms eða langs tíma. 10 ára óverðtryggða vísitalan er spennandi viðbót því nú verður mögulegt að reikna vænta verðbólgu markaðarins til 10 ára.“ sagði Páll Harðarson, forstjóri NASDAQ OMX Iceland, í tilkynningu „Við hér í Kauphöllinni munum áfram vinna ötullega að því að bjóða upp á fleiri vörur á skuldabréfa- sem og hlutabréfamarkaði á þessu ári og þannig ryðja brautina fyrir nýja fjárfestingarkosti“.

Gildi fyrir hina nýju OMXI10YNI hafa verið reiknuð aftur til byrjun árs 2011

Skuldabréfavísitölur Kauphallarinnar eru nú orðnar 6 talsins. Fyrir eru 10 ára verðtryggð, 5 ára verðtryggð, 5 ára óverðtryggð, 1 árs óverðtryggð og 3ja mánaða óverðtryggð, en þeim var öllum hleypt af stokkunum árið 2005 og söguleg gildi þeirra ná aftur til ársbyrjunar 1998.

Upplýsingar um gildi vísitalnanna má finna á Bloomberg og á heimasíðu NASDAQ OMX Iceland http://www.nasdaqomxnordic.com/index Nánari upplýsingar um vísitölurnar eru aðgengilegar í áskriftarþjónustu.