Heildarviðskipti með hlutabréf í Kauphöllinni í ágústmánuði námu rúmri 935 milljón króna eða 44 milljónum á dag.  Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf í júlímánuði 661 milljón króna eða 30 milljónir á dag.

Þetta kemur fram í mánaðaryfirliti Kauphallarinnar en mest voru viðskiptin með bréf Össurar, 512 milljónir króna og með bréf Marels eða 318 milljónir.

Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði um 0,08 % milli mánaða og stendur nú í 936,7 stigum.  Af atvinnugreinavísitölum hækkaði vísitala heilbrigðisgeira mest eða 2%.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Íslandsbanki með mestu hlutdeildina 43,9% (15,6% á árinu),  Virðing með 15,5% (2,5% á árinu) og Saga Capital með 14,1% (43,5% á árinu).

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 202,4 milljörðum króna í ágúst sem samsvarar 9,6 milljarða króna veltu á dag. Þessu til samanburðar var veltan með skuldabréf 5,3 milljarðar á dag í júlímánuði.

Mest voru viðskipti með flokka ríkisbréfa, RIKB 19 0226, 35,3 milljarðar og þá RIKB 11 0722 með 26,3 milljarða.  Alls námu viðskipti með ríkisbréf 115 milljörðum en viðskipti með íbúðarbréf námu 65 milljörðum.

Þá kemur fram að ávöxtunarkrafa þriggja mánaða óverðtryggðu vísitölunnar (OMXI3MNI) er nú 4,3% (-21 punktar), eins árs óverðtryggðu vísitölunnar (OMXI1YNI) 4,05% (-16 punktar) og fimm ára óverðtryggðu vísitölunnar (OMXI5YNI) 5,06% (-58 punktar).

Ávöxtunarkrafa 5 ára verðtryggðu vísitölunnar (OMXI5YI) stendur nú í 2,83% (-71 punktar) og 10 ára verðtryggðu vísitölunnar (OMXI10YI) í 2,94% (-55 punktar).

MP Banki var með mestu hlutdeildina á skuldabréfamarkaði í ágústmánuði eða 27,5% (30,7% á árinu), Íslandsbanki með 22,9% (23,3% á árinu) og Landsbankinn með 19,9% (20,8% á árinu).