Kauphöllin í New York mun breytast í almennt hlutafélag skráð á hlutabréfamarkað í mars vegna samruna við Archipelago Holdings Inc., segir greiningardeild Kaupþings banka. Við það verður til NYSE Group Inc, og hættir félagið þá að vera án aðsemismarkmiða.

Frá upphafi, eða í 213 ár, hefur Kauphöllin í New York verið í eigu aðila kauphallarinnar sem greitt hafa háar fjárhæðir fyrir sæti sín þar.

Í mars hver sem vill gerst hluthafi í félaginu en fjöldi aðila verður ennþá takmarkaður og sæti munu að líkindum áfram kosta sitt, segir greiningardeildin.

Miðað við síðasta ár fóru viðskipti með um helming hlutafjár allra skráðra hlutafélaga og sjóða í gegnum NYSE og Archipelago til samans svo að markaðshlutdeild hins nýja félags á hlutabréfamarkaði verður stór.

Yfirtakan á Archipelago, sem er rafrænn markaður í Chicago, mun hjálpa NYSE að keppa við NASDAQ markaðinn og gefur félaginu jafnframt kost á því að útvíkka starfsemina sína í viðskipti með valréttarsamninga.

Þeir 1.366 núverandi eigendur NYSE sem jafnframt eru aðilar kauphallarinnar koma til með að eignast um 70% hlut í hinu nýja félagi, NYSE Group og hluthafar Archipelago fá 30% en viðskipti með bréf í nýja félaginu hefjast 8. mars undir auðkenninu NYX.

NYSE Group mun verða fimmta stærsta kauphöllin hvað varðar viðskipti með valréttarsamninga en það þýðir að 9,6% slíkra samninga koma til með að fara þar í gegn.