Kauphöll Íslands hefur það skoðunar hvort upplýsingar sem kynntar voru fyrir fjárfestum, m.a. samkomulag við lánastofnanir um endurskipulagningu skulda og sölu á fasteign í Borgartúni, hafi verið verðmyndandi og því hafi átt að birta þær í kauphöllinni áður en samið var við nýja hlutahafa um aðkomu að félaginu. Sú lagaskylda hvílir á öllum skráðum félögum að upplýsa um allt sem talist geta verið verðmyndandi upplýsingar. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í morgun að hann gæti ekki tjáð sig um hvort það verklag sem forsvarsmenn Nýherja hefðu viðhaft væri í takt við lög. Hann staðfesti að Kauphöllin hefði viðskiptin til skoðunar og það væri verklagsregla hjá honum að tjá sig ekki um mál sem væru til skoðunar hjá Kauphöllinni.

Stjórn Nýherja hefur gengið frá samningum við fjárfesta, þar á meðal lífeyrissjóði, um kaup hlutafé í félaginu fyrir 120 milljónum að nafnvirði, eins og greint var frá í gærkvöldi. Viðskiptin fara fram á genginu 7 og heildarsöluverð því 840 milljónir króna. Í þessari viku verður hlutaféð aukið um 28 milljónir að nafnvirði en í desember um 92 milljónir að nafnvirði. Helmingur hlutafjáraukningarinnar kemur frá nýjum hlutahöfum en afgangurinn frá þeim sem eru núverandi hluthafar. Ekki fengust upplýsingar frá forsvarsmönnum Nýherja í gær hverjir væru hinir nýju hluthafar. Fram kom í ársreikningi Nýherja fyrr á árinu að hluti lána félagsins væri gjaldfallinn og þörf væri á endurskipulagningu og hlutafjáraukningu til þess að rétta af rekstur félagsins. Nýherji hefur auk þess náð samkomulagi við lánadrottna sína, Arion banka og Íslandsbanka. Heildarskuldir við Arion banka námu 2,5 milljörðum króna um mitt þetta ár.

Einnig samið við Íslandsbanka Í samkomulaginu við bankanna kemur einnig fram að félagið semji við Íslandsbanka um endurskipulagningu skulda sem um mitt þetta ár voru um 2,3 milljarðar króna. Skuldir við Íslandsbanka lækka um 137 milljónir við breytingu úr erlendri mynt í krónur. Þá kaupir Íslandsbanki húseignina að Borgartúni 37, þar sem Nýherji er með starfsemi, á 1.650 milljónir króna og leigir Nýherja fasteignina til 15 ára. Vaxtaberandi skuldir Nýherja verða eftir þessar breytingar 2,6 milljarðar króna. Greiðslutími lánanna verður á bilinu sjö til fimmtán ár. Það er um helmingslækkun á vaxtaberandi skuldum frá því um mitt ár 2010.

Aths. Í Viðskiptablaðinu í dag eru birtar upplýsingar um breytingar á lánaskilmálum Nýherja við Arion banka og Íslandsbanka, þar á meðal umbreytingu á hluta lána í kúlulán. Voru upplýsingarnar hluti af kynningu sem forsvarsmenn Nýherja hafa kynnt fyrir völdum fjárfestum undanfarin misseri og Viðskiptablaðið hefur undir höndum. Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í morgun að þessar upplýsingar væru ekki réttar og hefðu ekki skilað sér inn í lokasamkomulag við bankanna, sem kynnt var í tilkynningu til Kauphallar Íslands í gær. Beðist er velvirðingar á þessu.