Vísitölufyrirtækið MSCI hefur ákveðið að uppfæra ekki skilgreiningu sína á íslenska hlutabréfamarkaðnum sem vaxtamarkaðar þvert á það sem væntingar höfðu verið um. Verður því enn um sinn bið á því að vísitölusjóðir og aðrir erlendir stofnanasjóðir fjárfesti í auknum mæli á íslenska markaðnum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um þá komst hlutabréfamarkaðurinn íslenski inn í vísitölumengi FTSE fyrirtækisins í september. Voru vonir um að koma hans inn í vísitölumengi MSCI í maí á næsta ári myndi snúa við þeirri þróun að erlent fjármagn hefur verið að leita aftur úr landi.

Tilkynnti MSCI félagið í lok júní síðastliðins að til skoðunar væri að færa íslenska hlutabréfamarkaðinn, sem hefur verið skilgreindur sem vísitala fyrir stakan markað, upp í flokk vaxtarmarkaða (e. frontier status).

Milljarðar gætu komið inn á markaðinn

Það hefði þýtt að vísitölusjóðir sem fjárfesti í vísitölum félagsins þyrftu að fjárfesta í íslenskum hlutabréfum í samræmi við hlutfall íslenska sjóðsins í vísitölum fyrirtækisins. Jafnframt myndu opnast dyr fyrir aðra sjóði sem ekki mega fjárfesta í fjármálagjörningum sem ekki eru hluti af alþjóðlegri vísitölu.

Sem dæmi má nefna vísitölusjóð Blackrock sem fylgi Frontier vísitölu MSCI sem þyrfti að kaupa íslensk hlutabréf fyrir 5,6 milljarða króna í samræmi við stærð markaðarins hér í vísitölunni ef hann kemst inn að því er Fréttablaðið hefur eftir Jóhanni Möller forstöðumanni hlutabréfa hjá Stefni.

Ástæðan m.a. hve stutt síðan vorum í fjármagnshöftum

Nú er ljóst að ekki verður af þessum væntingum í maí á næsta ári, en ástæðan er sögð vera sú að alþjóðlegir stofnanafjárfestar lýstu áhyggjum af nokkrum þáttum á íslenska markaðnum í athuganarferli. Var þá vísað til þess hve nýlega við værum komin út úr fjármagnshöftum, sem og vegna tilkynningaferils vegna erlendra gjaldmiðla og aðgengis að verðbréfamiðlurum.

Að öðru leiti var markaðurinn sagður uppfylla flest nauðsynleg skilyrði. Hyggur MSCI skoða áfram mögulega þátttöku íslenska markaðarins inn í vísitölumengi sitt, en niðurstaðan er endurskoðuð á hálfs árs fresti.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa bæði Haraldur Þórðarson í Fossum mörkuðum og Páll Harðarson fyrrverandi forstjóri kauphallarinnar rætt um hvernig þátttaka í vísitölumengjum fyrirtækjanna FTSE og MSCHI geti stutt við veltu á íslenska markaðnum.

Annað sem er í undirbúningi til að styðja við aukna veltu er lagafrumvarp um skattaafslátt vegna kaupa almennings á bréfum í kauphöllinni.