Það stefnir í að heildarvirði félaga í kauphöllinni fari yfir 2.000 milljarða króna í sumar eftir skráningu Síldarvinnslunnar, Íslandsbanka, Play og Solid Clouds á markað. Það verður í fyrsta sinn frá hrunárinu 2008. Með því stefnir í að kauphöllin nái um tveimur þriðju af landsframleiðslu, sem einnig er hæsta hlutfallið frá hruni.

Samanlagt markaðsvirði allra félaga í Kauphöllinni hefur ríflega tvöfaldast frá ársbyrjun 2019 og náði úrvalsvísitalan sínu hæsta gildi frá upphafi við lok viðskipta á þriðjudag. Á fimmtudag hófust viðskipti með Síldarvinnsluna en við það fer heildarvirði skráðra félaga í Kauphöllinni yfir 1.900 milljarða króna.

Íslandsbanki verður líklega metinn á annað hundrað milljarða króna en von er á bankanum á markað í júní eftir hlutafjárútboð þar sem ríkið hyggst selja 25% hlut í bankanum hið minnsta.

Verðmæti Marel hækkað um yfir 400 milljarða

Um helmingurinn af hækkun á markaðsvirði Kauphallarinnar frá ársbyrjun 2019 er tilkominn vegna mikils vaxtar Marel. Markaðsvirði Marel hefur hækkað úr 253 milljörðum króna í byrjun árs 2019 í um 690 milljarða króna í dag.

Marel eitt og sér stendur því undir meira en þriðjungi af heildarvirði félaganna í Kauphöllinni. Þó hefur flestum félögum vegnað vel. Frá ársbyrjun 2020 hefur heildar markaðsvirði Kauphallarfélaganna hækkað um helming þrátt fyrir heimsfaraldurinn og virði 11 félaga af 18 hækkað um og yfir 40%.

Kauphöllin á þó enn nokkuð í að ná fyrri hæðum. Stærð kauphallarinnar náði hámarki í júlí 2007 þegar heildarvirði skráðra félaga nam 3.636 milljörðum króna eða um 264% af landsframleiðslu.

Félögin staðið vel af sér faraldurinn

Mörgum þykir það skjóta skökku við að í miðri heimskreppu hækki hlutabréfaverð duglega. Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, bendir á að flest félögin í Kauphöllinni hafi ráðið vel við nýjan veruleika í faraldrinum. „Við hefðum séð aðra þróun á markaðnum ef fleiri ferðaþjónustufyrirtæki væru skráð. Félög á markaðnum eru eiginlega öll þess eðlis að þau hafa staðið nokkuð vel af sér kreppuna,“ segir Magnús.

Þá hafi vaxtalækkanir einnig breytt miklu og styðji við hækkun hlutabréfaverðs enda þurfi fjárfestar að horfa til nýrra fjárfestingakosta þegar innistæður og skuldabréf gefa ekki af sér sömu ávöxtun og áður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .