Starfshópur menntamálaráðherra skrifaði skýrslu um starfsemi RÚV, en skýrslan er væntanleg von bráðar. Skýrslan fjallar meðal annars um fjögurra milljarða samning Ríkisútvarpsins um efnisdreifingu sem gerður var við Vodafone árið 2013. Þetta kemur fram í umfjöllun Eyjunnar .

Samningurinn var fjármagnaður af Vodafone sem svo gaf af sér jákvæða afkomuviðvörun til Kauphallarinnar. Ríkisútvarpið gerði slíkt hið sama og gaf frá sér jákvæða tilkynningu um áhrif samningsins, með fullyrðingu um að hann myndi engin áhrif hafa á heildarafkomu Ríkisútvarpsins.

Reyndin er sú að kostnaður vegna dreifikerfisins hefur numið einhverjum 300 milljónum á ári síðan samningurinn var gerður. Tæknin sem samin var um var þá orðin úreld, og hefði í staðinn getað nýst til ljósleiðaravæðingar um land allt. Samningurinn stendur til fimmtán ára.

Uppfært 20:15: Samkvæmt upplýsingum frá Vodafone er fjarskiptafélaginu ekki kunnugt um að nein rannsókn eigi sér stað frá hendi Kauphallarinnar um málið. Eins og áður sagði kemur umrædd skýrsla út á fimmtudaginn.