Frá því hlutabréfamarkaðir lokuðu eftir fyrsta viðskiptadag ársins, miðvikudaginn 2. janúar, hefur úrvalsvísitala Kauphallarinnar, OMXI8, lækkað hvern einasta dag, nú samanlagt um 3,4% frá dagslokavirði sínu 2. janúar.

Í dag lækkuðu 12 af 18 skráðum félögum á aðalmarkaði kauphallarinnar, og heildarvelta hlutabréfaviðskipta nam 2,4 milljörðum. Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,8%.

Icelandair var hástökkvari dagsins, með 2,74% hækkun í 96 milljóna króna viðskiptum, en auk þess hækkaði Arion banki um 1,79% í 293 milljón króna viðskiptum, og Marel lítillega, um 0,14% í 206 milljóna viðskiptum. Önnur félög ýmist stóðu í stað eða lækkuðu.

Mest lækkuðu bréf Haga, um 6,10% í 130 milljón króna viðskiptum. Næst á eftir komu bréf Origo með 2,28% lækkun í 27 milljóna viðskiptum, og fast á hæla þeirra komu bréf Eikar með 2,27% lækkun í 169 milljóna viðskiptum.

Mest velta var með bréf Reita, sem lækkuðu um 2,00% í 464 milljóna króna viðskiptum, en þar á eftir komu Arion banki og síðan TM, með 0,29% lækkun í 257 milljóna króna viðskiptum.