Það var grænt um að litast á aðalmarkaði Nasdaq Iceland í dag, fyrsta viðskiptadag eftir jólafrí. Öll félögin, utan tveggja sem stóðu í stað, hækkuðu í viðskiptum dagsins.

Mest hækkun dagsins var með bréf í Eik en þau hækkuðu um 4,49% í 41 milljón króna viðskiptum. Icelandair kom þar næst á eftir með 3,82% og er viðbúið að tíðindi af bólusetningum hafi hjálpað til. TM hækkaði síðan um 3,58% í 176 milljón króna viðskiptum.

Skeljungur hækkaði um rétt tæp þrjú prósent en fimmtán milljóna viðskipti dugðu til þess. Iceland Seafood og Kvika hækkuðu bæði um 2,96% í ríflega 210 milljón króna viðskiptum hvort félag um sig. Þá fóru Reitir upp um 2,90%, Festi um 2,56%, Reginn um 2,12% og Arion um 2,07%.

Veltan í dag nam 3,3 milljörðum króna og 54 milljónum betur. 496 milljónir króna má rekja til viðskipta með bréf í Marel, 423 milljónir króna til Arion banka og 408 milljónir til Reita. Engin viðskipti voru með bréf í Brim og hitt félagið sem stóð í stað var Eimskip. OMXI10 vísitalan hækkaði um 1,34% í dag.

Á skuldabréfamarkaði var flest með kyrrum kjörum en veltan í heild var tæplega 1.360 milljónir króna.