Kauphöllin mun í dag, ásamt sjö öðrum mörkuðum Nasdaq OMX í Eystrasaltsríkjunum og á Norðurlöndunum, taka í notkun nýtt viðskiptakerfi, INET.

Kerfið hefur verið notað hjá kauphöllinni Nasdaq í New York frá árinu 2007 og mun nú leysa núverandi viðskiptakerfi Kauphallarinnar, SAXESS, af hólmi.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er INET-kerfið allt að tíu sinnum hraðara en SAXESS. Reynslan af notkun kerfisins í New York hefur verið góð og svokallaður uppitími, þ.e. sem kerfið er uppi án þess að truflun verði á viðskiptum, hefur staðist væntingar við það mikla álag sem fylgt getur verðbréfaviðskiptum í dag.

Með tilkomu INET verður nú sama viðskiptakerfi notað í Bandaríkjunum, á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum en það kann að hafa ýmsa kosti í för með sér.

„Þetta kerfi mun auðvelda aðgengi og er jafnframt mikilvægt fyrir endurreisn markaðarins,“ segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, í samtali við Viðskiptablaðið en að sögn Þórðar auðveldar hið nýja kerfi aðgang alþjóðlegra aðila að íslenskum markaði.

Þórður segir að INET-kerfið sé með bestu viðskiptakerfum sem í boði eru í heiminum í dag. Hann segir jafnframt mikilvægt að Íslendingar hugi að framtíðinni þegar kemur að verðbréfaviðskiptum og að hér á landi verði vel útbúin kauphöll sem komi  að endurreisn hagkerfisins.

Leggja grunninn að framtíðinni

Þórður segir Kauphöllina komna til að vera og þrátt fyrir núverandi niðursveiflu verði alltaf að huga að framtíðinni. Þórður segir ljóst að mörg rekstrarfélög muni innan skamms sækja um skráningu í Kauphöllinni og því engin ástæða til að draga lappirnar í allri umgerð Kauphallarinnar.

Heyra má á Þórði að með því að taka í notkun nýtt kerfi séu menn að undirbúa farveg fyrir viðskipti framtíðarinnar. Þá segir Þórður tilvalið að bankarnir sem tekið hafi yfir ákveðin fyrirtæki í landinu komi þeim á markað sem fyrst. Með nýju viðskiptakerfi opnast greiðari aðgangur að markaðnum, sérstaklega auðveldar það aðgengi erlendra fjárfesta að íslenskum fyrirtækjum.