Meirihluti kauphallarfélaganna hækkuðu í dag eða 17 af 20 félögum. Eik fasteignafélag var þar í fararbroddi en félagið hækkaði um 3,27% í kauphöllinni í dag í 368 milljóna króna viðskiptum. Hlutabréfagengi félagsins er nú í 11,05 krónum en á ársgrundvelli hafa bréf félagsins hækkað um 59,22%.

Þá hækkaði Sýn um 2,88% og eru bréf félagsins nú 41,05 krónum á hlut en bréf félagsins hafa hækkað um næstum 70% frá ágústbyrjun á síðasta ári. Íslandsbanki kom þar á eftir en félagið hækkaði um 1,85% í dag.  Athygli vekur að bankinn er kominn í 110 krónur á hlut eftir viðskipti dagsins eða 39% yfir útboðsgenginu.

Heildarvelta í dag nam 3,6 milljörðum króna. Mesta veltan var með bréf Símans, sem hækkaði um 0,51%, en viðskipti með þau námu 663 milljónum króna. Arion banki hækkaði um 0,93% í næst mestu veltu dagsins sem nam 641 milljón króna. Í þriðja sæti var Kvika banki með 523 milljóna króna veltu.

Kvika var jafnframt eitt af aðeins tveimur félögum til að lækka í dag en hitt félagið var Icelandair. Kvika lækkaði um 0,31% og Icelandair um 0,97%. Gengi flugfélagsins stóð í 1,52 krónum við lokun Kauphallarinnar. Nýtingartímabil áskriftarréttinda hjá Icelandair í flokknum ICEAIRW130821 (ISIN  IS0000032266) hófst í dag og er eindagi greiðslu 19. ágúst. Gengið fyrir þennan flokk er 1,13 krónur á hlut. Áskriftarrétindin fylgdu samþykktum tilboðum í hlutafjárútboði Icelandair í september síðastliðnum.