Heildarvelta allra félaga í Kauphöllinni á öðrum ársfjórðungi nam 350 milljörðum króna. Af þeirri upphæð nam velta með bréf í Kaupþingi, Glitni og Landsbankanum tæpum 240 milljörðum, eða um 67% af heildarveltunni.

Til samanburðar nam heildarvelta á fyrsta fjórðungi þessa árs um 509 milljörðum. Veltan minnkar því um 30% á milli fjórðunga. Samtals áttu sér stað rúm 24 þúsund viðskipti með bréf í öllum félögum Kauphallarinnar. Meðalvelta á hver viðskipti er þar af leiðandi tæpar 15 milljónir króna. Heildarvelta á öðrum fjórðungi 2007 nam 633 milljörðum króna, og hefur veltan því dregist saman um 45% miðað við sama tímabil í fyrra.

„Ólíklegt verður að teljast að velta í ár verði meiri en í fyrra meðal annars sökum afskráninga félaga en tilkynnt var í gær um væntanlega afskráningu 365. Félagið er það sjöunda á árinu til að vera afskráð og SPRON verður það áttunda gangi samruni félagsins eftir við Kaupþing,“ segir í Vegvísi Landsbankans.