Kauphöll Íslands afgreiddi samtals 63 eftirlitsmál á síðasta ári. Þar af var 18 málum vísað til Fjármálaeftirlitsins til frekari skoðunar. Þetta kemur fram í árlegu yfirliti Kauphallarinnar yfir slík mál.

Af málunum 63 afgreiddi Kauphöllin 42 mál vegna gruns um brot á reglum um upplýsingagjöf félaga á markaði en 21 mál sem lutu að viðskiptum með verðbréf.

Mál vegna gruns um brot á reglum um upplýsingagjöf  félaga á markaði voru afgreidd með mismunandi hætti. Ellefu mál voru afgreidd með athugasemd og eitt með óopinberri áminningu. Fimm málum var vísað til FME til frekari skoðunar. Alls voru  25 mál felld niður.

Af þeim  málum sem lutu að viðskiptum með verðbréf voru þrjú mál afgreidd með athugasemd. Eitt mál var afgreitt með óopinberri áminningu. Þrettán málum var vísað til FME til frekari skoðunar. Fjögur mál voru felld niður.